Tvennt var fyrir fram talið geta ógnað fyrirhuguðu heimsþingi Alþjóðajarðhitasambandsins sem haldið var hér á landi í vikunni. Það var annars vegar heimsfaraldur og hins vegar eldgos á Reykjanesi. Hvort tveggja gerðist!
Bjarni Pálsson, formaður skipulagsnefndar heimsþingsins í Reykjavík, sagði að þessir áhættuþættir hafi verið nefndir í áhættumati sem var gert árið 2016.
„Eldgosið á Reykjanesi var reyndar skilgreint þannig að það myndi loka fyrir umferð um Keflavíkurflugvöll. Sem betur fer rættist það ekki. En þegar jörðin fór að skjálfa á Reykjanesi dustaði ég rykið af áhættumatinu. Mér þótti þetta með ólíkindum,“ sagði Bjarni.
Heimsfaraldur kórónuveirunnar hafði mikil áhrif á heimsþingið. Upphaflega var gert ráð fyrir að það myndi standa í fimm daga auk hliðarráðstefna fyrir og eftir. Samanlagður fjöldi gesta margfaldaður með fundardögum benti til þess að þetta yrði umfangsmesti viðburður sem haldinn hefði verið á Íslandi.
Næsta heimsþing verður haldið í Kína árið 2023. Þar hefur nýting jarðhita vaxið hröðum skrefum. Bjarni, formaður skipulagsnefndar heimsþingsins, og Hildigunnur Thorsteinsson varaformaður afhentu Fang Hua, fulltrúa kínversku sendinefndarinnar á ráðstefnunni, formlegt hlutverk gestgjafans með því að rétta honum afsteypu af listaverkinu Sólfar, sem felur í sér von og birtu, eftir Jón Gunnar Árnason.