Farsóttarnefnd hefur áhyggjur af fjölda smita

Heimsóknarreglur á spítalanum hafa verið hertar.
Heimsóknarreglur á spítalanum hafa verið hertar. mbl.is/Jón Pétur

Farsóttanefnd Landspítala hefur áhyggjur af fjölda smita í samfélaginu og þeim fjölda innlagna sem óhjákvæmilega leiðir af því. Bendir nefndin á að áhrif á starfsemina séu mikil og geta til að sinna venjubundnum verkefnum minnki eftir því sem umfangið vegna faraldursins stækki. Þetta kemur fram í tilkynningu á heimasíðu Landspítalans.

„Nýlegar afléttingar mildra og skynsamlegra sóttvarnaaðgerða hafa ekki reynst vel, hvorki á Íslandi né annars staðar,“ segir í tilkynningu frá farsóttarnefndinni.

Er starfsfólk spítalans hvatt til að hvika að engu frá persónubundnum sóttvörnum, nota grímur í margmenni, þvo og spritta af kappi og vera stöðugt á verði gagnvart mögulegum einkennum. 

Ef starfsmanni spítalans er skipað í sóttkví vegna nálægðar við smit í samfélaginu þá fær hann strikamerki fyrir sýnatöku á 5. degi í stað 7. dags áður vegna breyttra reglna um sóttkví. Ef það er neikvætt þá má hann snúa til vinnu og fylgir þá gildandi sóttvarnaráðstöfunum spítalans í hvívetna. Vinnusóttkví C vegna útsetningar í starfi verður hins vegar áfram 7 dagar og lýkur með neikvæðu sýni á 7.degi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert