Greiði tæplega milljón í sekt fyrir líkamsárás

Landsréttur.
Landsréttur. mbl.is/Hallur Már

Landsréttur þyngdi í dag dóm Héraðsdóms Reykjaness yfir manni sem veittist að fyrrverandi sambýliskonu sinni svo að hún hlaut brot á bringubeini. Maðurinn er dæmdur í átta mánaða skilorðsbundið fangelsi og er gert að greiða brotaþola 900 þúsund krónur í miskabætur.

Maðurinn er dæmdur fyrir að hafa sparkað af afli í brjóstkassa konunnar árið 2017 með þeim afleiðingum að hún hlaut brot á bringubeini. Í dómi héraðsdóms var maðurinn sýknaður af því að hafa slegið brotaþola með þeim afleiðingum að brotaþoli hlaut brot á fingri, opið sár á hné og á fingri. Landsréttur fellir sig við þá sýknu. 

Úr þriggja í átta mánaða skilorð

Brotaþoli krafðist þess að ákærði greiddi henni rúmlega tvær og hálfa milljón í skaðabætur. Í dómi héraðsdóms var ákærða dæmt að greiða brotaþola 500 þúsund krónur en í dómi Landsréttar er honum gert að greiða henni 900 þúsund krónur.

Þá var ákærða gert að sæta skilorðsbundið fangelsi í þrjá mánuði samkvæmt dómi héraðsdóms en í dómi Landsréttar segir að ákærði skuli sæta skilorðsbundið fangelsi í átta mánuði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert