„Þetta byrjaði með beinagrind sem sat við borð en hugmyndin er sótt til New Orleans sem segja má að sé í efsta sæti þegar hrekkjavaka er annars vegar,“ segir Einar Birgir Baldursson sem komið hefur fyrir um 20 fígúrum af öllum stærðum og gerðum í anda hrekkjavökunnar í garðinum hjá sér.
Hann býr við Heiðarveg 50 í Vestmannaeyjum með konu sinni Írisi Sif Hermannsdóttur og börnum þeirra, Baltasar Þór og Aþenu Rós. Framtakið hefur ekki bara glatt fjölskylduna heldur alla sem fara um Heiðarveginn.
„Við hjónin höfum þrisvar verið í New Orleans síðustu dagana í október til að upplifa hina sönnu hrekkjavökustemningu. Þeir leggja mikið upp úr fjölbreyttum skreytingum og nú erum við komin með smá sýnishorn hérna í Vestmannaeyjum.“