Sölu- og dreifingafyrirtækið Alief er búið að selja sýningaréttinn að kvikmyndinni Leynilöggu út til landa bæði í Evrópu og Asíu. Meðal þeirra landa sem munu brátt hefja sýningar á hasar-grínmyndinni eru Þýskaland, Japan, Spánn og Kórea.
Kvikmyndin var frumsýnd í síðustu viku hér á Íslandi og sló aðsóknarmet á fyrstu helginni sinni í kvikmyndahúsum. Áður en hún var frumsýnd hérlendis hlaut hún mikið lof á kvikmyndahátíðum erlendis.
Brett Walker, forstjóri Alief, jós myndina lofi í viðtali við Variety: „Styrkleiki Leynilöggu felst í fullkomnu jafnvægi milli hasars og fyndni. Taktur kvikmyndarinnar er grípandi frá fyrstu mínútu og alveg til loka.“
Leynilöggan verður frumsýningarmyndin á Norrænum dögum á Kvikmyndahátíðinni í Lübeck í Þýskalandi 3. nóvember en MFA Plus Film-dreifingarfyrirtækið hefur tryggt sér sýningarrétt að myndinni á þýskumælandi svæðum og stefnir að frumsýningu þar á næsta ári samkvæmt tilkynningu.