Mannauðsstjóra þjóðkirkjunnar sagt upp störfum

Ástæðan sem var gefin fyrir uppsögninni var bág fjárhagsstaða kirkjunnar.
Ástæðan sem var gefin fyrir uppsögninni var bág fjárhagsstaða kirkjunnar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ingunni Ólafsdóttur hefur verið sagt upp störfum sem mannauðsstjóra þjóðkirkjunnar. Þetta staðfestir hún í samtali við mbl.is. Ástæðan sem var gefin upp var fjárhagsstaða kirkjunnar.

„Það er greinilega verið að leita leiða til að rétta hana af,“ segir Ingunn.

„Eins og gengur með uppsagnir þá auðvitað kom þetta mér á óvart en ég sýni þessu fullan skilning. Ég veit að fjárhagsstaðan er eitthvað sem þarf að laga,“ bætir hún við.

Ingunn tók við starfinu árið 2019 eftir að hafa áður starfað sem mannauðsstjóri hjá Flugmálastjórn og Flugstoðum á árunum 2001-2010. Eftir það starfaði hún hjá Isavia og Eflu áður en hún hóf störf á Biskupsstofu.

Frá fundi Kirkjuþings á miðvikudag.
Frá fundi Kirkjuþings á miðvikudag. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ekki ætlunin að segja upp 

Fyrir kirkjuþingi, sem lauk á miðvikudaginn, lá fyrir tillaga um að framlengja tímabunda stöðvun nýráðninga til starfa hjá þjóðkirkjunni til áramóta og að ráðist yrði í hagræðinu á mannahaldi kirkjunnar, meðal annars með fækkun presta og sameiningu prestakalla.

Ein af niðurstöðum þingsins var að framlengja stöðvun nýráðninga. Fram kom að fjárhagsnefnd þjóðkirkjunnar ynni að fjárhagsáætlun og sagði Drífa Hjartardóttir, forseti kirkjuþings, að ekki væri ætlunin að segja upp fólki, en prestar hafa verið mjög uggandi um störf sín í ljósi bágrar fjárhagsstöðu kirkjunnar.

Pétur Georg Markan.
Pétur Georg Markan. mbl.is/Árni Sæberg

Ekki fleiri uppsagnir

Spurður segir Pétur Georg Markan, biskupsritari og samskiptastjóri Biskupsstofu, að ekki hafi verið fleiri uppsagnir vegna fjárhagsstöðunnar en að kirkjan tjáir sig annars ekki um einstök mál.

„Við erum að laga okkur að nýjum veruleika þar sem núna blasir við eftir þetta kirkjuþing að rekstrarhallinn er mikill og það þarf að mæta því með alls konar krefjandi verkefnum,“ segir hann.

mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert