„Meðvirkni með bönkunum sem spáðu rangt“

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri.
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Reykjavíkur, mætti gagnrýni um lóðaskort, sem komið hefur fram meðal annars hjá Samtökum iðnaðarins, og sagði að skorturinn undanfarið væri ekki vegna þess að fáum lóðum hefði verið úthlutað heldur vegna þess að allir viðskiptabankarnir hefðu skrúfað fyrir fjármögnun til verktaka. Þetta kom fram í framsögu hans á árlegum kynningarfundi borgarinnar um uppbyggingu íbúða í borginni í Ráðhúsinu í morgun. Fjallað var um málið meðal annars í Morgunblaðinu fyrr í vikunni.

Fór Dagur yfir hvernig þróun íbúða í byggingu hefði verið undanfarin ár og náð hámarki árið 2019, en svo hrapað á öðrum ársfjórðungi. Sagði hann mikla umræðu hafa verið um þennan skort og deilt um ástæðuna. Sagði hann að ljóst væri hvað hefði valdið þessu. Þannig hafi í byrjun árs 2019 verið mikið af verkefnum í gangi og meðal annars þrjú stór félagsleg verkefni. Bankarnir hafi þá ákveðið að stíga á bremsuna varðandi fjármögnun. „Allir bankarnir skrúfuðu fyrir,“ sagði Dagur.

Á öðrum ársfjórðungi þetta ár datt niður fjöldi samþykkta fyrir byggingaverkefnum hjá byggingarfulltrúa og segir Dagur að það hafi ekki verið vegna þess að Reykjavík hafi látið á sér standa. „Var vegna þess að verktakar fengu ekki lánað,“ bætti hann við og sagði jafnframt að margir verktakar hafi mætt í fjölmiðla og sagt að of mikið væri af eignum í byggingu.

Sagði hann að allir bankarnir hafi á þessu tímabili dregið saman útlán og að umræðan núna litaðist af „meðvirkni með bönkunum sem spáðu rangt.“ Þá hafi vaxtalækkanir Seðlabankans, sem enginn hafi séð fyrir, einnig ýtt undir gríðarlega eftirspurn sem erfitt hafi verið að mæta á stuttum tíma.

Dagur tók fram að nú væri hins vegar farið að koma í ljós að bankarnir væru aftur farnir að lána til verktaka og verkefnum að fjölga á ný.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert