Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir það ekki rétt að ekkert fullbólusett barn hafi greinst með Covid-19, þrátt fyrir að áður hafi verið sagt frá því. Tæknilegum vandamálum er þar um að kenna. Hið rétta er að af rúmlega 12 þúsund fullbólusettum börnum 12 til 15 ára hérlendis hafa níu greinst með Covid-19, eða 0,07%.
„Til samanburðar þá hafa um 3.750 af um 266.000 fullbólusettum einstaklingum eldri en 15 ára greinst með Covid-19 (1,4%). Vísbendingar eru því um að bólusetning barna kunni að vera áhrifaríkari en bólusetning fullorðinna til að koma í veg fyrir smit af völdum Covid-19,“ segir í orðsendingu Þórólfs á Covid.is.
Hann segir ákvörðun um bólusetningu barna yngri en 12 ára ekki hafa verið tekna, enda hafi engin bóluefni verið samþykkt hérlendis fyrir börn á þeim aldri. Bóluefni frá Pfizer er í umsóknarferli hjá Lyfjastofnun Evrópu og er von á niðurstöðu í desember næstkomandi.
Þórólfur nefnir að heldur færri hafi greinst með Covid-19 í gær en í fyrradag. Meðalaldur þeirra 13 sem liggja inni á spítala er 56 ár. „Erfitt er að túlka smittölur einstakra daga en þróun faraldursins mun skýrast betur á næstu dögum,“ segir hann.