Birgir Ármannsson, formaður Undirbúningsnefndar Alþingis sem fer fyrir rannsókn kjörbréfa, segir ekki ljóst hvaða afleiðingar atkvæðið sem nýlega uppgötvaðist mun hafa í för með sér fyrir störf nefndarinnar. Útilokar hann ekki að nefndin þurfi að fara í aðra vettvangsathugun í Borgarnes.
Á miðvikudag fór nefndin í sína aðra ferð í vettvangsathugun til Borgarness þar sem talning atkvæða fyrir Norðvesturkjördæmi. Í ferðinni uppgötvaðist að gilt atkvæði hefði legið í bunka merktum auðum atkvæðum. Leikur grunur á því að talning atkvæða hafi hafist áður en kjörstöðum lokaði, sem er óheimilt.
Spurður hvort að atkvæðið komi til með að hafa áhrif á störf nefndarinnar, segir Birgir það ekki enn liggja fyrir. „Eins og gerist í svona máli þegar það er til athugunar þá koma upp allskonar vinklar á meðan á vegferðinni stendur. Þarna er auðvitað um að ræða eitt slíkt atriði. Við þurfum að meta heildstætt hvað skiptir máli og hvað skiptir ekki máli. Síðan taka ákvörðun á grundvelli kosninga- og þingskapalaga.“
Telur nefndin að hægt sé að ganga úr skugga um að ekki hafi fleiri atkvæði farið á rangan stað?
„Við höfum ekki ástæðu til að ætla það en við erum hins vegar ekki búin að ljúka þessum þætti málsins. Við erum ekki búin að ljúka umfjöllun um þetta þannig það er í sjálfu sér ótímabært að segja af eða í þessu sambandi.“
Segir hann gagnaöflun nú nálgast endi og að brátt verði hægt að færa rannsóknina yfir á næsta stig. Er nefndin enn að meta þær upplýsingar sem að vantar. Ekki hefur þó verið tekin ákvörðun um hvort að þörf sé á annarri vettvangsferð „en það gæti vel til þess komið,“ segir Birgir.