Síðasta konan ráðin fyrir áratug

Ásta Dís Óladóttir, dósent í Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands.
Ásta Dís Óladóttir, dósent í Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands. Ljósmynd/Aðsend

Áratugur er liðinn frá því að kona var síðast ráðin inn í stól forstjóra í skráðu félagi á Íslandi, þrátt fyrir að stjórnir fyrirtækja falli undir reglugerðir um kynjakvóta. Þá eru skiptar skoðanir að finna meðal kvenna í leiðtogastöðum um hvað eigi til bragðs að taka til að jafna út þá stöðu sem við stöndum frammi fyrir, að sögn Ástu Dísar Óladóttur, dósent í Viðskiptafræðideild við Háskóla Íslands.

Ásta og samstarfsfélagar hennar hafa staðið fyrir rannsókn á kynjahlutfalli í stjórnunarstöðum fyrirtækja. Hafa niðurstöður m.a. leitt í ljós að konur eigi almennt erfiðar uppdráttar í æðstu stöður í einkageiranum í samanburði við hinn opinbera. Virðist sem ráðningarferlið hafi þar mikið um að segja en það er almennt „gegnsærra og faglegra“ hjá hinu opinbera.

Ásta kynnti rannsóknina og niðurstöður hennar í erindi á Þjóðarspeglinum sem fór fram í dag.

Staðan er 19 - 1

Þrátt fyrir að Ísland hafi leitt lista Alþjóðaefnahagsráðsins síðustu 12 ár þá er einungis einn kvenkyns forstjóri í Kauphöllinni á móti 19 karlkyns. Kynjahlutfallið í opinbera geiranum er hins vegar mun jafnara en konur eru um 48% forstöðumanna ríkisstofnana. Þá virðast konur frekar sitja við stjórnvölinn í minni fyrirtækjum.

„Reynslan hefur sýnt það að það eru bara meira en nóg af hæfum konum. Það er ekkert vandamál. Mun fleiri konur eru að brautskrást úr háskólanámi heldur en karlar í dag. Þær eru margar með mjög góða reynslu en ef þú ræður aldrei konu í forstjórastól þá getur hún ekki hlotið þessa reynslu sem þar.

Þetta er spurning um hversu langt erum við tilbúin til að ganga og hversu langt erum við tilbúin að fara á réttindi hluthafa líka. En þetta hefur verið of langur tími til að halda áfram að bíða,“ segir Ásta í samtali við blaðamann.

Lög um jafnara hlutfall kynja í stjórn verið frá 2008

Árið 2010 voru samþykkt lög um kynjakvóta í stjórnun fyrirtækja með fleiri en 50 starfsmenn. Lögin tóku strax gildi hjá opinberum hlutafélögum en voru ekki innleidd að fullu fyrr en í september árið 2013. Fram að því hafði einkahlutafélögum, hlutafélögum og samlagshlutafélögum verið veittur aðlögunartími.

Þá er einnig kveðið á það í lögum að atvinnurekendur og stéttarfélög skulu vinna markvisst að því að jafna stöðu kynjanna á vinnumarkaði, og þá sérstaklega að jafna hlutfall kynjanna í stjórnunar og áhrifastöðum, sbr. Lög nr. 10/2008.

Að sögn Ástu virðast þessi lagaákvæði hafa skilað takmörkuðum árangri fyrir utan þann sem má sjá í opinbera geiranum.

„Samkvæmt nýjustu úttekt Creditinfo sér maður að þetta eru 850 fyrirtæki sem þeir eru með undir hjá sér og konum er ekki að fjölga þar heldur. Eina atvinnugreinin þar sem að staðan er góð er í opinbera geiranum. Á einkamarkaði erum við ekki að sjá nein áhrif á þessum kynjakvótalögum og eins og ég segi, staðan er bara ekki góð.“

Skoðanir gagnvart kynjakvóta breyst

Í könnun sem Ásta og samstarfsfélagar hennar stóðu fyrir, sem 189 konur í stjórnunar- og áhrifastöðum tóku þátt í, kom í ljós að 60% þeirra væru hlynntar kynjakvóta á framkvæmdastjórnarstöður. Aðspurð segir hún ekki koma á óvart að 40% kvennanna séu mótfallnar honum enda sé hann afar umdeildur. Segir hún fólk hafa mismunandi sýn á hvers vegna ætti að innleiða hann eður ei, þykir þá mörgum um of mikið inngrip að ræða. Hún telur þó umræðan og skoðanir fólks hafa breyst töluvert á síðustu 10 árum

„Ég man alveg eftir umræðunni þegar það var verið að setja kynjakvóta á stjórnir félaga. Það voru ofboðslega margir sem voru andvígir og sögðu að þetta gengi gegn samkeppnislögmálum á markaði og að það ætti ekki að þröngva fyrirtækjum til að gera þetta en þú heyrir ekki mikið í dag raddir gegn kynjakvóta í stjórnum. Það hefur alveg sýnt sig að það er nóg af hæfum konum sem sitja í þessum stjórnum. Ég get ekki séð að það sama ætti ekki að gilda varðandi framkvæmdastjórn félaga.“

Kynjakvóti ekki eina ráðið

Ásta vekur athygli á því að hægt er að grípa til annarra ráða heldur en að setja á kynjakvóta til að jafna hlut kynjanna. Sem dæmi væri einnig hægt að grípa til arftakastjórnunar, þar sem að kvenkyns og karlkyns kandídat eru þjálfuð til að taka við stjórnartaumum. Einnig geta stjórnir mótað sér stefnu um hlutfall kynja í stjórnunarstöðum og að lokum geta lífeyrissjóðir sett inn ákvæði í eigenda- og fjárfestingarstefnu þar sem kveðið er á um að sjóðurinn fjárfesti ekki í félagi nema það uppfylli ákveðin skilyrði varðandi kynjamál.

„Það er hægt að fara ýmsar leiðir. Hvaða leið við ætlum að fara veit ég ekki en kynjakvóti er lang afdrifaríkasta útspilið.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert