Stefnir í tilkomumikil norðurljós um helgina

Morgunblaðið/Hafþór Hreiðarsson

Landsmenn geta búist við því að sjá mikla litadýrð á næturhimninum um helgina að sögn Sæv­ars Helga Braga­sonar stjörnu­fræðing­s, gjarn­an kallaður Stjörnu-Sæv­ar. Í samtali við mbl.is segir Sævar að vegna öflugs sólblossa sem varð í gær geti orðið mikil norðurljós yfir landinu öllu er dimma fer á morgun.

Sævar Helgi Bragason.
Sævar Helgi Bragason. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Sólblossi er í raun og veru sprenging á sólinni þar sem orka losnar úr læðingi, yfirleitt á formi ljósblossa. Þessum tiltekna blossa fylgdi hins vegar líka gusa af efni frá sólinni sem kallast sólvindur. Þegar að þessi sólvindur skellur á jörðina seinnipartinn á morgun þá má búast við því að fólk sjái norðurljós alveg frá því að það dimmir og eitthvað frameftir.“

Sævar segir að sólblossi líkt og þessi sé tiltölulega sjaldséður á þessum tíma ársins þar sem hann fari eftir virkni sólarinnar en hún er í lágmarki núna. Hann segir að um helgina verði það sem kallast segulstormur, „þá fáum við kvik og litrík norðurljós sem eru þá mjög svo dansandi og tilkomumikil ef að líkum lætur.

Sævar segir óvíst nákvæmlega hvenær norðurljósin sjáist en það fara eftir aðstæðum og hversu stórt „ský“ komi frá sólinni og hvenær það komi. „Samkvæmt skýjaveðurspá er útlitið býsna gott fyrir stóran hluta landsins.

Horfa í allar áttir

Er eitthvað sérstakt sem þú ráðleggur fólki til þess að sjá norðurljósin?

„Ég myndi gjóa augunum til himins og orðið er nægilega dimmt, þá ættu norðurljós að blasa við á himninum. Ef það verður mikil virkni þá verða norðurljósin ekki bara í norðri heldur nánast beint yfir okkur,“ segir Sævar og bætir við að því sé um að gera að horfa í allar áttir.

Hann segir að norðurljósin ættu einnig auðveldlega að sjást af höfuðborgarsvæðinu og því þurfi fólk ekki endilega að fara úr bænum, „bara einhversstaðar þar sem að ljós lýsa ekki beint í augun á fólki.“

Lesendur mbl.is eru hvattir til þess að senda ljósmyndir af norðurljósum helgarinnar á netfrett@mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert