Stigafjöldi þurfi ekki að ráða í ráðningarmálum

Skúli Magnússon er umboðsmaður alþingis.
Skúli Magnússon er umboðsmaður alþingis. mbl.is/Eggert

Umboðsmaður alþingis birti í dag álit unnið út frá frumkvæðisathugun á ráðningum opinberra starfsmanna og stigagjöfum í þeim. Þar ítrekaði hann að þess háttar stigagjafir væru takmörkum háðar og benti á mikilvægi þess að heildstætt mat fari fram.

Í álitinu kemur fram að mál tengd ráðningum í opinber störf hafi orðið æ fyrirferðarmeiri í störfum hans en þau hafa einnig ratað í fjölmiðla og til dómstóla. Þessi mál snúast gjarnan um hvernig umsækjendum eru gefin stig fyrir tiltekna þætti og þá hvaða áhrif það hefur á þann tölulega samanburð sem fer fram í lok umsóknarferilsins. 

Skekkjumörk geti haft áhrif

Í tilkynningu frá umboðsmanni segir að „fortakslaus notkun stigagjafar geti leitt til þess að mat á þekkingu og getu sem máli skipti fari fyrir ofan garð og neðan. Tekur umboðsmaður einnig dæmi um hvernig skekkjumörk við stigagjöf geta haft áhrif á lokaútkomuna. Stjórnvöld verði að taka mið af þeim takmörkunum sem stigagjöf feli í sér og axla ábyrgð á því raunverulega og heildstæða mati sem liggja eigi til grundvallar ákvörðun.“

Sendi 6 ábendingar til stjórnvalda

Í álitinu sem umboðsmaður sendi ráðherrum og stjórnvöldum koma fran 6 ábendingar til yfirvalda um opinber ráðningarmál:

  • Ábyrgð stjórnvalds stendur óhögguð þótt notað sé tölulegt stigamat og haga þarf málsmeðferð þannig að unnt sé að sýna fram á að heildstæður efnislegur samanburður hafi farið fram á raunverulegri starfshæfni.
  • Gæta þarf málefnalegra sjónarmiða og jafnræðis við tölulegan samanburð á hæfni umsækjenda.
  • Stigamat er að jafnaði aðeins til leiðbeiningar. Sérstaklega þarf að gæta þess þegar lítill munur er á milli umsækjenda og val stendur á milli fárra á lokastigi.
  • Gera þarf ráð fyrir skekkjumörkum og marktækum mun við samanburð.
  • Stigamat getur ekki sjálfkrafa falið í sér endanlega niðurstöðu eða tæmandi skýringu á forsendum ráðningar eða skipunar.
  • Gæta þarf að kröfum stjórnsýsluréttar þegar byggt er á sjónarmiðum sem byggjast að meira eða minna leyti á huglægu mati.

Hann hvatti stjórnvöld til þess að líta til ofangreindra ábendinga og álits hans við notkun stigamats við ráðningar og skipanir héðan í frá. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert