Þarf að bera helming tjónsins vegna ölvunar

Landsréttur taldi konuna hafa sýnt af sér stórkostlegt gáleysi með …
Landsréttur taldi konuna hafa sýnt af sér stórkostlegt gáleysi með háttsemi sinni í reiðtúrnum. mbl.is/Árni Sæberg

Kona sem slasaðist við fall af hestbaki árið 2018 var í dag dæmd í Landsrétti til þess að bera helming tjóns síns sjálf vegna eigin sakar en hún mældist með 2,38 prómill af vínanda í blóði á bráðamóttökunni í kjölfar slyssins. Þetta er önnur niðurstaða en í héraði þar sem tryggingafélagi konunnar var gert að greiða allan sjúkrakostnað hennar.

Slysið átti sér stað í reiðtúr á milli Reykja í Mosfellsdals og Laxness en samkvæmt vitnum var drukkið í upphafi ferðar en enginn kannaðist við að sú sem féll hefði verið ófær um að stjórna hryssu sinni sökum drykkju. Kom meðal annars fram að hún „væri fædd og uppalin á hestbaki og hefði verið í góðri þjálfun er slysið varð.“

Man ekkert eftir slysinu

Konan mundi ekki eftir slysinu en varð nokkuð mein af því. Hún höfuðkúpubrotnaði og tognaði í hálsi og mjóbaki. Þá sagðist hún hafa misst lyktarskynið og þurft að þola skerðingu á lyktarskyni, sjón og einbeitingargetu. 

Tryggingafélagið hafði þegar greitt þriðjung sjúkrakostnaðar konunnar en taldi áfengisneyslu hennar fría félagið af frekari ábyrgð. Hún viðurkenndi að hafa drukkið tvo bjóra fyrir ferðina.

1,5 prómill skerðir andlega starfsemi alvarlega

Í dóminum er vísað til leiðbeiningarskjals landspítalans þar sem segir að ef vínandamagn í blóði sé 2,1-2,8 prómill séu „ölvunareinkenni áberandi og erfiðleikar með hreyfingu og tal.“ Auk þess er vísað til gagna frá Félagi íslenskra bifreiðaeigenda þar sem fram komi að 1,5 prómill í blóði „leiði til alvarlegrar skerðingar líkamlegrar og andlegrar starfsemi, ábyrgðarleysis og erfiðleika með að standa, ganga og tala.“

Þar sem vínandamagn í blóði konunnar mældist 2,38 prómill komst rétturinn að þeirri niðurstöðu að konan „hafi ekki verið fær um að stjórna hestinum örugglega þegar slysið átti sér stað og verður hún talin hafa sýnt af sér stórkostlegt gáleysi með þeirri háttsemi sinni.“

Hefði átt að vita betur sem vanur hestamaður

Rétturinn taldi auk þess að sem vönum hestamanni hefði konunni mátt vera ljóst að „veruleg hætta gæti verið á því að hún félli af baki hestsins í umræddu ástandi, einkum ef eitthvað óvænt kæmi upp, og því ljóst að sök stefndu er umtalsverð.“

Konan bar það fyrir sig að mæling á vínandamagni í blóði hennar hafi ekki verið fullnægjandi og þá sérstaklega að mælingin hafi farið fram á landspítalanum. Rétturinn féllst ekki á þau rök en lét tryggingafélagið bera helming tjónsins meðal annars með vísan til þess hve umfangsmiklu líkamstjóni konan hafi orðið fyrir. Þá var einnig litið til þess að gögn málsins bendi til þess að eitthvað utanaðkomandi hafi fælt hryssuna auk þess að konan hafi ekki verið áberandi ölvuð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert