Urður Egilsdóttir
Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, segir í samtali við mbl.is að fjöldi Covid-smita sé vissulega áhyggjuefni nú og telur slakanir í aðgerðum ekki endilega bestu lausnina.
Farsóttanefnd Landspítala gaf frá sér tilkynningu í dag þar sem lýst er yfir áhyggjum af fjölda smita í samfélaginu og þeim fjölda innlagna sem óhjákvæmilega leiðir af því.
Sigurður Ingi nefnir að óhjákvæmilegt er að bera smittölur saman við nágrannaríkin. „Eins og til dæmis Danmörk sem er með svipaða hlutfall bólusettra. Mér hefur sýnst að þar hafi smitum líka fjölgað nokkuð, í svipuðum takti og hér,“ segir hann og nefnir að Danir virðast þó halda ró sinni yfir fjölguninni.
„Ég hef sagt að við ættum kannski að sjá til hvernig þetta þróast og vera með tilmæli til fólks að huga að einstaklingsbundnum sóttvörnum og meta hvernig þú verð þig.“
Hann segir aðalatriðið vera að þeir sem finni fyrir einkennum fari í sýnatöku og umgangist ekki annað fólk.
Telur þú þá ekki vera tímabært að slaka á aðgerðum?
„Nei, við höfum auðvitað það markmið og kannski getum við gert það, eins og Norðurlöndin hafa gert, en það þýðir ekki að við sjálf séum ekki meðvituð um hver staðan er.“