Í þeim fimm áfrýjunardómum sem hafa fallið hér á landi á árunum 2010 til 2021 þar sem meintir gerendur stefndu þolendum fyrir ærumeiðingar vegna ásakana um kynferðisofbeldi eða ofbeldis í nánu sambandi, voru þolendur sýknaðir í öllum tilfellum. Til viðbótar er einn héraðsdómur, en í því máli voru tvö ummæli af fjórtán dæmd dauð og ómerk en málinu var ekki áfrýjað.
Hildur Fjóla Antonsdóttir, nýdoktor í réttarfélagsfræði hjá EDDU rannsóknarsetri Háskóla Íslands, fjallaði um dómana í erindi á Þjóðarspeglinum í dag en á síðustu árum hefur færst í aukana að meintir gerendur stefni þolendum vegna ærumeiðinga ef þolendur tjá sig opinberlega um reynslu sína.
Í þessum málum sem Hildur skoðaði voru þrír þættir eru einkenndu sýknukröfur stefndu. Í fyrsta lagi tjáningarfrelsisákvæði stjórnarskrárinnar, í öðru lagi að stefndu töldu og færðu sönnur fyrir því að ummælin væru réttmæt, og í þriðja lagi að ummælin hafi verið mikilvægur liður í þjóðfélagsumræðu um kynferðisofbeldi.
„þetta eru nokkur atriði sem talin eru styðja við málflutning brotaþola í svona málum. Að því gefnu að dómurinn taki undir þau rök. En það er ekki mikil reynsla komin á þetta, þetta eru ekki mörg mál.“
Segir Hildur þá sönnunarkröfu í þessum málum ekki jafn háa eins og í refsirétti. Er þá horft til þess hvort að stefndi hafi leitt nægar líkur að góðri trú sinni um réttmæti ummæla sinna.
Segir hún auk þess að túlkun áfrýjunardómstóla á tjáningarfrelsisákvæðum í auknum mæli tekið mið af dómaframkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu, þar sem tjáningarfrelsinu er gefið mikið vægi, en það hefur spilað veigamikið hlutverk í að sýkna þolendur.
„Það eru all nokkur mál sem varða tjáningarfrelsisákvæðið sem hafa farið fyrir Mannréttindadómstól Evrópu og Ísland hefur verið að fá skell þar. Það virðist vera raunin að íslenskir dómstólar séu að breyta sinni dómaframkvæmd og að tjáningarfrelsið sé að fá meira væri heldur en það gerði áður. Það er þá eitthvað sem að þjónar hagsmunum blaðamanna og þolenda í þessum málaflokki.“
Eins og er þá er meiðyrðalöggjöf enn þá í hegningarlögum. Að sögn Hildar er þetta frekar óheppilegt og bent hefur verið á að slíkt fyrirkomulag gangi í raun gegn tjáningarfrelsisákvæðinu.
„Það varðar sekt og fangelsisvist að brjóta gegn meiðyrðarákvæðunum en í praxís hefur það ekki verið reyndin. Á undanförnum árum hafa dómstólar ekki verið að dæma fólk í fangelsi fyrir brot á meiðyrðaákvæðum. Það hefur ítrekað verið fjallað um þetta á þingi og ýmsar þingsályktunartillögur hafa verið lagðar fram.
Nú síðast var lagt fram stjórnarfrumvarp árið 2019 sem hefur það að markmiði að afnema refsingar vegna ærumeiðinga að mestu leyti og færa úrræði vegna þeirra í sérstök lög á sviði einkaréttar, en það er ekki búið að gera það enn þá.“