Töfratalan er 112

Arnrún Magnúsdóttir við kennsluspjöld verkefnisin.
Arnrún Magnúsdóttir við kennsluspjöld verkefnisin. mbl.is/Unnur Karen

Alþjóðlegi árveknidagurinn um slag eða heilablóðfall er í dag. Af því tilefni verður forvarnaverkefnið „FAST 112-hetjurnar“ kynnt opinberlega þegar Eliza Reid forsetafrú heimsækir leikskólann Brákarborg í Brákarsundi 1 í Reykjavík.

Fræðsluverkefnið er ætlað börnum á aldrinum 5-9 ára. Þeim er kennt að þekkja helstu einkenni slags og hvernig eigi að bregðast rétt við. Þar koma FAST 112-hetjurnar Friðrik fyndna fés, Arnór armur og Soffía söngkona til leiks. Þegar þær missa kraftinn þekkir Tómas tímanlegi, barnabarn þeirra, einkennin og hringir strax í 112. Aðstandendur kynnast hetjunum í gegnum börnin og verða meðvitaðir um einkennin og réttu viðbrögðin.

Kennsluefnið aðgengilegt

Marianne E. Klinke, dósent við Háskóla Íslands og forstöðumaður fræðasviðs í hjúkrun tauga- og taugaendurhæfingarsjúklinga á Landspítala, stýrir verkefninu á Íslandi og hefur haft umsjón með þýðingu og staðfæringu efnisins. Hún fékk Arnrúnu Magnúsdóttur, leikskólakennara og frumkvöðul í forvörnum fyrir börn, til þess að ýta verkefninu úr vör. „Um fimm vikna námsefni er að ræða og ég byrjaði að kynna fasthetjurnar í Brákarborg fyrir tveimur vikum,“ segir hún.

Friðrik fyndna fés, Arnór armur, Soffía söngkona og Tómas tímanlegi.
Friðrik fyndna fés, Arnór armur, Soffía söngkona og Tómas tímanlegi.

Efnið er bæði í verkefnabókum og á netinu (fastheroes.com og „Fast 112 hetjurnar“ á facebook). Arnrún segir að börnin séu fljót að tileinka sér þekkinguna og viðbrögðin, sem þar eru útskýrð í máli, söng, myndböndum og þrautum. „Teiknimyndafígúrurnar eru skemmtilegar og gaman hefur verið að eiga einlægt samtal við börnin um þetta mikilvæga efni.“ Hún leggur áherslu á að börnin séu frædd um ýmsar aðrar hættur í lífinu og slag sé ekki flóknara eða skelfilegra en annað. Helstu einkenni þess séu andlit sem sígi niður öðrum megin, máttlaus handleggur og truflað tal. Mikilvægt sé að þekkja þau og hringja í 112 ef grunur sé um slag. „Við kennum þeim að þekkja einkennin og syngjum lög um þau til að festa þau í minni.“

Rétt viðbrögð geta bjargað mannslífum. Arnrún þekkir það á eigin skinni og notfærir sér það í kennslunni, þegar hún bendir börnunum á að hún hafi lamast vinstra megin um tíma eftir að hafa fengið slag fyrir fimm árum, og þurft að læra að tala og ganga á ný. „Ég fór mjög illa út úr þessu, en rétt viðbrögð eiginmanns míns, fasthetjunnar minnar, urðu til þess að ég öðlaðist annað líf,“ útskýrir hún. „Vonandi stökkva allir viðeigandi um borð og taka þátt í verkefninu, því sjúkdómurinn er ótrúlega algengur og talið er að fjórða hver manneskja fái slag á lífsleiðinni.“

Arnrún áréttar að forvarnir skipti mjög miklu máli. „Slag er dauðans alvara og mikilvægt að börn viti að 112 er barnanúmerið, töfratalan okkar.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert