Í tengslum við einleikstónleika Víkings Heiðars Ólafssonar í Hörpu 19., 20. og 21. nóvember birtist hér hið fyrsta af nokkrum innslögum sem Víkingur hefur gert í samstarfi við Morgunblaðið og mbl.is þar sem hann spjallar um sum verkanna sem hann mun flytja í Hörpu og gefur tóndæmi. Fleiri slíkar upptökur með píanóleikaranum vinsæla munu birtast á vefnum á næstunni.
Á sunnudaginn eftir rúma viku, 7. nóvember næstkomandi, verða síðan sérstakir tónleikar Víkings í streymi á mbl.is, í læstri dagskrá fyrir áskrifendur.
Á fyrnefndum þrennum tónleikum í Hörpu mun Víkingur Heiðar fagna útgáfu fjórðu einleiksplötu sinnar hjá Deutsche Grammophon, Mozart & Contemporaries, en hún hefur hlotið einróma lof gagnrýnenda úti um heimsbyggðina og setið í efstu sætum vinsældalista víða um lönd.