Tveggja ára fangelsi fyrir fíkniefnainnflutning

Maðurinn gaf sjálfur ekki skýrslu fyrir dómi en framburður hans …
Maðurinn gaf sjálfur ekki skýrslu fyrir dómi en framburður hans hjá lögreglu þótti ótrúverðugur. mbl.is/Ófeigur

Héraðsdómur Reykjaness dæmdi á miðvikudag karlmann, Friðrik Hansson, í tveggja ára fangelsi fyrir stórfellt fíkniefnalagabrot. 

Var Friðriki gefi að sök að hafa staðið að innflutningi á samtals 1.560 ml af vökva sem innihélt amfetamínbasa að styrkleika 43 til 44 prósent, ætluðu til söludreifingar hér á landi.

Fíkniefnin flutti hann til landsins með flugi frá Barcelona á Spáni í mars árið 2019, í tveimur áfengisflöskum sem hann faldi í farangri sínum. Tollverðir á Keflavíkurflugvelli fundu efnin við komuna til landsins.

Við skýrslutöku hjá lögreglu gaf Friðrik tvær mismunandi skýringar á því hvernig hann fékk flöskurnar í hendurnar. Fyrst sagðist hann hafa fengið þær gefins á heimili á Spáni. Samið hafi verið um að hann tæki flöskurnar með sér til landsins, en hann hafi ekki haft hugmynd um hvort einhver hafi átt að fá þær hér á landi. Hann hafi ekki hugsað út hvort um eitthvað saknæmt væri að ræða. Sagðist hann hafa ætlað að eiga flöskurnar sjálfur ef hann fengi einhvern í mat.

Nokkrum dögum síðar, í annarri skýrslutöku, sagðist hann hafa unnið flöskurnar í einhverri þraut á hverfishátíð og þær verið í kassa. En náungar sem hafi verið með honum hafi talað hann inn á að taka flöskurnar með til Íslands og að hann hafi átt að geyma þær vel.

Síðar í skýrslutökunni sagðist hann þó ekki muna hver átti frumkvæði að því að hann tæki flöskurnar með til Íslands.

Eftir að á hyggja kvaðst hann viss um að hann hafi verið notaður sem burðardýr en hann hafi ekki verið neyddur til að flytja fíkniefnin til Íslands og vissi ekki hverjum hann átti að afhenda þau.

Friðrik gaf ekki skýrslu fyrir dómi en var framburður hans við skýrslutöku talinn ótrúverðugur og því ekki lagður til grundvallar þegar komist var að niðurstöðu í málinu. Hins vegar þótti sannað með játningu að hann hafi vitað af flöskunum í farangri sínum. Hann bæri því refsiábyrgð á innflutningnum jafnvel þó honum hafi ekki verið kunnugt um nákvæmt innihald flasknanna. Þótti tveggja ára fangelsisvist því hæfileg refsing. Þá var honum gert að greiða allan sakarkostnað í málinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert