Vestfirðir tróna á toppi lista yfir svæði til að heimsækja árið 2022 að mati ferðabókaútgefandans Lonely Planet. Viðurkenningin heitir Best in Travel og nær yfir lönd, svæði og borgir.
Vestfjarðarstofa segir að þetta val Lonely Planet muni beina kastljósi heimsbyggðarinnar að Vestfjörðum og að það muni reynast „mikil lyftistöng fyrir ferðaþjónustuna á svæðinu og á Íslandi almennt.“
Ferðarithöfundar, bloggarar, starfsfólk Lonely Planet tilnefna staði fyrir Best in Travel listann en sá listi fer síðan fyrir dómnefnd sem fær þá hlutverk til þess að velja 10 bestu staðina.
„Fyrir uppbyggingu ferðaþjónustu á Vestfjörðum fæst ekki jafn glæsileg viðurkenning og Best in Travel hjá Lonely Planet er. Ég hef oft sagt að Vestfirðir eigi mikið inni þegar að kemur að ferðaþjónustu og þarna sjáum við það alveg svart á hvítu að þetta einstaka svæði sker sig úr í samkeppni við alla rómuðustu áfangastaði heimsins.“ er haft eftir Díönu Jóhannsdóttur hjá Áfangastaðastofu Vestfjarða.