96 innanlandssmit í gær – „Faraldurinn á uppleið“

Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn.
Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn. mbl.is/Eggert Jóhannesson

96 greindust með kórónuveiruna innanlands í gær, þar af var um helmingurinn í sóttkví. Þetta staðfestir Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn við mbl.is. 

„Þetta er hátt og sýnir að við erum enn þá frekar að fjölga þeim sem eru í einangrun, þannig að faraldurinn er á uppleið. Það er vöxtur í þessu og það er áhyggjuefni,“ segir Víðir.

Víðir bendir á þróunina á Landspítalanum síðustu daga varðandi fjölgun þeirra sem hafa verið að leggjast þar inn með Covid-19. „Það er ekkert sem segir okkur að það verði ekki áfram,“ segir hann og vísar í tölfræði um að um 2% þeirra sem smitast af veirunni þurfa að leggjast inn á spítalann.

Umræðan hafi komið bylgjunni af stað

Víðir kveðst vera sammála Svandísi Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra um að ólíklegt sé að öllum takmörkunum verði aflétt 18. nóvember líkt og stefnt var að.

„Við erum búin að ganga í gegnum þessar bylgjur í fjögur til fimm skipti og séð að í kjölfarið á tilslökunum fáum við aukningu,“ segir hann.

„Það sem er sérstakt við þetta núna er að umræðan um tilslakanir virtist duga til. Bylgjan er eiginlega komin af stað áður en reglugerðin tekur gildi,“ bætir hann við.

„Maður veltir fyrir sér hvað við þurfum að gera þessa tilraun oft í staðinn fyrir að reyna að finna einhverja leið á meðan við erum að ganga í gegnum þennan faraldur, sem er einhver lína sem gerir það að verkum að kerfin okkar ráði við þetta.“

Hann nefnir að kerfin hafi verið að ráða vel við stöðuna þegar smitin voru 40 til 50 talsins á dag í október. „Um leið og við förum yfir það fer þetta að þyngjast og það er óskhyggja að eitthvað annað gerist.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert