Lágtíðniskjálftar hafa haldið áfram að mælast á Torfajökulssvæðinu. Skjálftarnir hafa mælst á svæðinu frá því að fyrstu mælar voru settir upp árið 1986 en virknin nú er sérstæð að því leyti að hún er afar reglubundin og áköf.
Á facebooksíðu Veðurstofu Íslands kemur fram að skjálftarnir séu litlir, eða um hálft stig og að þeir séu mjög líkir hver öðrum, óvenju langir og mælist með 5 til 15 mínútna millibili.
„Nokkrar skýringar hafa verið nefndar til að skýra virknina; hæg hreyfing um grunnstæðan sprunguflöt; hreyfingar á seigfjótandi (kísilsýruríku) kvikuinnskoti og breytingar í jarðhitakerfinu,“ segir á síðunni.
Vísindafólk frá Háskóla Íslands og Veðurstofunni hittist í gær ásamt fulltrúa frá almannavarnadeild og ræddu virknina. Ekki er hægt að festa fingur á ferlið sem myndar skjálftana og töluverð óvissa er í staðsetningu þeirra en engin önnur gögn liggja fyrir sem benda til breytinga á svæðinu.
Tvö vísindaflug voru áformið í grennd við Torfajökul um helgina og verða þau sameinuð athugunum vegna þessara tíðinda. Þar verður skoðað hvort áberandi breytingar hafa orðið á yfirborðsvirkni á jarðhitasvæðum og teknar verða myndir af svæðinu til að nota við samanburð síðar.
Veðurstofan er með sólarhringsvakt og fylgist vel með framvindunni.