Nýafstaðið kirkjuþing afgreiddi ekki tillögu um sölu 24 fasteigna kirkjunnar og verður málið tekið upp að nýju á framhaldsfundi undir lok nóvember. Aftur á móti var samþykkt tillaga frá fjárhagsnefnd þingsins um að fasteignasviði kirkjunnar yrði falið að afla frekari upplýsinga um þær eignir, sem þar eru tilgreindar, svo sem um ástand þeirra, viðhaldsþörf, rekstrarkostnað, tekjur af eigninni og áætlað söluverð þeirra eigna sem það á við. Ætlast er til að verkið verði unnið í samráði við nefndina.
Eins og fram kom hér í blaðinu í síðustu viku lagði starfshópur á vegum kirkjuþings til að átta jarðir og 16 aðrar fasteignir í eigu þjóðkirkjunnar yrðu seldar. Tillagan er liður í fjárhagslegri endurskipulagningu kirkjunnar. Meðal eignanna er embættisbústaður biskups á Bergstaðastræti 75. Jarðirnar sem selja á samkvæmt tillögunni eru Árnes 1, Desjarmýri, Kolfreyjustaður, Miklibær, Skeggjastaðir, Syðra-Laugaland og Brúnir (úr Syðra-Laugalandi) og Voli. Jarðir kirkjunnar eru nú 33 talsins auk Skálholts. Þar af eru 18 jarðir setnar prestum. Þjóðkirkjan á auk þess 27 fasteignir sem nýttar eru sem íbúðarhúsnæði.