Alþýðustúlkan sem varð greifynja

Garðhús. Sigrún við æskuheimili Þuríðar, Garðhús í Reykjavík, það er …
Garðhús. Sigrún við æskuheimili Þuríðar, Garðhús í Reykjavík, það er friðað og skjöldur settur á það á laugardag. mbl.is/Árni Sæberg

Þessi stórmerka kona, íslenska alþýðustúlkan sem varð greifynja de Grimaldi, er mörgum gleymd,“ segir Sigrún Magnúsdóttir þjóðfræðingur sem ætlar að bæta úr því og flytja erindi í dag í Ættfræðifélaginu um Þuríði Þorbjarnardóttur, sem giftist Henri de Grimaldi, afabróður Alberts fursta af Mónakó.

„Þuríður fæddist 30. október 1891 en hún missti föður sinn ung og var fyrir vikið alin upp hjá einstæðri móður og afa sínum og ömmu, sem öll bjuggu í Garðhúsum í Reykjavík. Húsið stendur enn og er friðað, en þau eru ekki mörg húsin hér á landi sem enn standa og eru beintengd við sögu kvenna. Þetta er steinbær sem var sjómannshús við sjávarsíðuna og byggt í anda torfbæjanna. Garðhús voru alþýðuheimili en mikið menningarhús. Þuríður ólst upp við mjög menningarlegar aðstæður á alþýðuvísu en amma hennar og nafna, Þuríður Eyjólfsdóttir, var hafsjór af fróðleik og áberandi í bæjarlífi á þessum tíma sem ein helsta menningarkona bæjarins. Í Garðhús sóttu skáld og þar þótti líf og fjör. Af þessu sést í hvaða umhverfi hin unga Þuríður elst upp og hún fékk að fara í Kvennaskólann, tók tvo bekki saman á einum vetri, 1911-1912.“

Hreifst af menntun og háttvísi

Sigrún segir að eitt af því sem þótti einkenna Þuríði hafi verið hversu góð hún var í tungumálum.

Þuríður Þorbjarnardóttir Grimaldi og Henri de Grimaldi, afabróðir Alberts fursta …
Þuríður Þorbjarnardóttir Grimaldi og Henri de Grimaldi, afabróðir Alberts fursta af Mónakó. Myndin er tekin 1925, dánarár Þuríðar.

„Hún talaði dönsku, ensku og frönsku og hún starfaði um tíma í verslun á Búðum og í skartgripaverslun Jóns Sigmundssonar á Laugavegi. Eflaust hefur hún þurft að nota erlend tungumál í því sem hún sinnti fyrir þessi tvö fyrirtæki. Afi hennar var hafnsögumaður, en til að geta orðið slíkur í Reykjavík á þessum tíma þurftu menn að kunna hrafl í erlendum tungumálum, þeir þurftu að geta bjargað sér þegar erlend skip komu. Tungumál hafa því væntanlega ekki verið framandi í Garðhúsum, á æskuheimili Þuríðar.“

Sigrún segir að þegar Þuríður var 29 ára hafi hún verið fengin til að starfa á Hótel Skjaldbreið, hið örlagaríka ár í lífi hennar fyrir hundrað árum, 1921.

„Þá var mikið að gerast í Reykjavík og fólk bjóst við erlendum ferðamönnum og þá veitti ekki af að hafa stúlku í móttöku hótelsins sem kunni erlend tungumál. Þar hitti hún markgreifann, Henri de Grimaldi, afabróður Alberts fursta af Mónakó, ekkjumann sem var þrjátíu árum eldri og tilheyrði elstu konungsætt Evrópu. Sagt er að hann hafi verið mjög háttprúður og stórgáfaður maður, hafi meðal annars haft þrettán tungumál á valdi sínu, en hann var málvísindamaður og lagði meðal annars stund á norræn mál og talaði og skrifaði íslensku. Henri hafði kynnst Guðmundi Finnbogasyni landsbókaverði þegar hann var í Sorbonne-háskóla í Frakklandi og fyrir hvatningu hans kom Henri til Íslands. Væntanlega hefur verið stórkostleg uppgötvun fyrir greifann að hitta fyrir á Hótel Skjaldbreið hana Þuríði, unga glæsilega reykvíska stúlku, sem var vel að sér í bókmenntum og menningu. Hún hafði gott menningarlegt nesti úr Garðhúsum, þar sem skáld voru fastagestir og amman lifði í fornum riddarasögum. Sagt er að greifinn hafi hrifist af glæsileika, menntun og háttvísi Þuríðar. Hann gisti á hótelinu og svo getum við í eyðurnar. Þetta er mikið ástarævintýri þar sem erlendur stórefnaður konungborinn greifi og alþýðustúlka á Íslandi verða ástfangin við upphaf tuttugustu aldar.“

Gremjulegt að sjá skraut og auð

Þuríður sigldi með Gullfossi af landi brott með greifanum 23. október 1921, fyrir um 100 árum.

„Þau sigldu héðan með Gullfossi til Kaupmannahafnar og kannski hélt hún upp á þrítugsafmælið um borð í Gullfossi. Þau fóru svo frá Kaupmannahöfn til Hamborgar, þaðan til Parísar og að lokum til Lissabon þar sem greifinn bjó. Þeim auðnaðist því miður ekki að vera samvistum nema í fjögur ár og eignuðust engin börn, en Þuríður dó úr berklum í Brussel árið 1925, þá tæplega 34 ára. Hún hefur mögulega borið berklana með sér héðan frá Íslandi, því það var þó nokkuð um berkla í hennar móðurætt,“ segir Sigrún og bætir við að dýrmætið sem við eigum um líf Þuríðar eftir að hún flutti burt með greifanum séu sendibréfin hennar, en Sigrún ætlar einmitt að fjalla um þau í erindi sínu í dag.

„Þuríður skrifaði bréf heim til Íslands til vinkonu sinnar Ragnhildar Sigurðardóttur, öll þessi fjögur ár sem hún bjó erlendis. Fyrsta bréfið skrifaði hún rétt rúmum mánuði eftir að hún fór héðan. Þar kemur fram að með þeim er ung stúlka, Gunnlaug Briem, 19 ára dóttir Valdimars Briem prests, en það voru tengsl á milli fjölskyldnanna. Gunnlaug var hjá þeim í Lissabon í heilt ár og Auður Finnbogadóttir, systurdóttir Þuríðar, kom eftir það og var líka ár hjá þeim sér til heilsubótar. Greifinn vildi gjarnan að Þuríður hefði íslenska konu sér til félagsskapar, til halds og trausts,“ segir Sigrún og bætir við að deilur hafi verið í fjölskyldu greifans um hver væri rétti prinsinn af Mónakó.

„Um þetta skrifar Þuríður í einu bréfanna og þar segir orðrétt: „Hann er voða ríkur maður og það er gremjulegt að sjá allt hans skraut og auðæfi sem eru í kringum hann og hann á alls engan rétt á að hafa. Ekki svo að skilja að það sé leiðinlegt fyrir mig, því ef greifinn væri í rétti sínum að vera prins af Mónakó, væri ég að öllum líkindum ekki gift honum, sem í raun og veru er stórt lán fyrir mig, ekki satt.“

Bréfin vitna um heimþrá

Sigrún segir að í bréfum Þuríðar komi fram gríðarleg heimþrá.

„Hún var alltaf að vonast til að komast aftur til Íslands í heimsókn. Í einu bréfinu segist hún því miður ekki komast það sumarið, því hún þurfi að fara á heilsuhæli í Belgíu. Hún segist vera mikið innan um hefðarfólk í fínum húsum, en að hana langi meira til að vera samvistum við alþýðufólk. Í einu bréfinu segir hún orðrétt: „Mikið vildi ég heldur vera í einhverju húsinu í Reykjavík.“

Sigrún vekur athygli á að íslensk kona í Íslendingafélaginu í Brussel, Guðrún Högnadóttir Ansiau, hafi tekið sig til og farið að grafast fyrir um líf Þuríðar eftir að hún fluttist út.

„Hún heimsótti ættingja greifans og hefur fengið margskonar upplýsingar frá Grimaldi-ættinni. Guðrún hefur lagt mikið á sig við þessa vinnu og hún hafði einnig uppi á legsteini Þuríðar þar sem hún er jarðsett í Brussel, undir kórónu Grimaldi-ættarinnar. Guðrún heillaðist af sögu Þuríðar og hefur annast um grafreit hennar af stakri prýði.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert