Högni Egilsson er með mörg járn í eldinum sem endranær. Um helgina verður opnuð í Hörpu margmiðlunarsýningin CIRCULEIGHT, þar sem hann á tónlistina, og á föstudaginn mun Sinfóníuhljómsveit Íslands flytja verk hans í sama húsi, þar á meðal Sinfóníu nr. 1.
Högni segir þetta endurspegla sinn veruleika ágætlega enda sé hann dálítið tvískiptur. „Mér finnst gaman að fást við svo margt og verð aldrei saddur á einum stað. Lífið hefur líka krafið mig um það. Ég nýt þess að hugleiða þetta afl sem tónlistin er. Hún er eins og vatnið – við þurfum lífsnauðsynlega á þessu að halda. Og líklega aldrei meira en nú, enda erum við í sorg og fasa endurreisnar,“ segir hann og vísar í heimsfaraldurinn.
Högni er sammála því að fyrsta sinfónían sé merkileg varða á vegferð sérhvers tónskálds. „Hún er varða á ferðalagi sem er persónulegt, það er minn leiðangur gegnum tónlistina. Með þessu verki er ég líka kominn í nýja álfu tónlistarlega og kann vel við mig. Hver veit nema maður festi þar einhverjar rætur?“ segir hann.
– Þú lofar sumsé fleiri stórum verkum?
„Já, ábyggilega. Af einhverju tagi. Hvort sem það verða hljómsveitarverk, söngleikir eða eitthvað allt annað.“
Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Högni vinnur með Sinfóníuhljómsveit Íslands en Hjaltalín kom fram með sveitinni fyrir nokkrum árum, auk þess sem hún lék og tók upp tónlist Högna við Kötlu. Síðarnefnda verkefnið varð raunar upptaktur að tónleikunum nú. „Hljómsveitin óskaði eftir efni frá mér fyrir þessa tónleika og þótt ég ætti það til, Kötlumúsíkina og fleira, fór ég strax að hugsa hvort ég ætti ekki að tefla fram einhverju nýju líka. Þannig varð þetta uppspretta að nýjum rannsóknum og þroska í sambandi mínu við tónlistina. Ég hef skrifað fyrir einstök hljóðfæri og hljóðfærahópa en aldrei heila sinfóníuhljómsveit. Verkið er í þremur þáttum og ég kalla það sinfóníu vegna þess að þannig er samtal mitt við verkið.“
Af þessu má ráða að Högni settist ekki gagngert niður til að semja sinfóníu, sem að forminu til er samofin nítjándu öldinni í huga margra. „Hægt, hratt, hægt,“ segir hann kankvís. „Það var ekki á gátlistanum að semja sinfóníu og að mörgu leyti villtist ég af leið, eins og svo oft áður. Augnablikið bara fangar mann. Sinfónían sem slík er þekkt stærð; ég þurfti ekkert að afsanna afstæðiskenningu Einsteins. Þetta er bara mín saklausa aðkoma að tónunum og listinni. Leiksviðið er svo rosalega stórt. Sinfónísk tónlist nýtur mikillar virðingar enda formið þokkafullt.“
Hér er okkar maður kominn á flug enda að tala um móður allra ástríðna, tónlistina. „Mitt sjónarhorn hefur alltaf verið vítt enda er tónlist í grunninn bara hugleiðing um hljóð. Tónlist á sér engin takmörk og er eilíf uppspretta ímyndunar. Hún skipar veglegan sess í tilveru okkar og líkamnast í öllu mögulegu. Meðal annars þegar listamenn leika á gömul hljóðfæri og gefa allt í verkefnið, tónlistarlega og tilfinningalega. Tónlist er skipulögð saga og daður við hið óútskýranlega. Hafandi sagt það þá er rosalegur agi fólginn í sinfóníunni sem formi. Alltént samanborið við margt annað. En það er dásamleg þraut að reyna að snerta á hinu eilífa í tónlistinni, ómögulegt en dásamlegt.“
Enda þótt innan við vika sé í frumflutning á Sinfóníu nr. 1 hefur höfundurinn enn ekki heyrt verkið. „Það er ekki ennþá til,“ fullyrðir hann enda hefjast æfingar hljómsveitarinnar ekki fyrr en á mánudaginn. „Þess utan þá er tónlist ekki til fyrir mér – nema í ímyndunarafli hlustandans, þar sem hún deilir stað með hræðslu okkar, draumum og þrám. Tökum bara Sinfóníu nr. 1 sem dæmi; annar flutningur á henni gæti orðið allt öðruvísi en sá fyrsti og þar fram eftir götunum. Sama gildir um ljóðið sem deilir sömu uppsprettu og tónlistin. Gildir þá einu hvort við erum að tala um sinfóníu, sönglag eða dáleiðslukennt teknó. Allt kemur þetta frá sama stað – og rótin er póetískur veruleiki sem við erum hugfangin af, hvar sem við svo setjum niður fótinn. Tónlistin er í eðli sínu brögðótt og jafnast þegar best lætur á við hreinan galdur.“
Nánar er rætt við Högna í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins.