Eliza líkir loftslagsvánni við jafnréttisbaráttuna

Eliza segir áhrif hnattrænnar hlýnunnar áberandi á landinu.
Eliza segir áhrif hnattrænnar hlýnunnar áberandi á landinu.

Eliza Reid forsetafrú er viðmælandi í þættinum The National hjá fréttastofunni CBC í Kanada. Þar er fjallað um eitt helsta áherslumál forsetafrúarinnar en hún brennur fyrir aðgerðum í loftslagsmálum.

„Við getum ekki bara haldið áfram að tala,“ segir Eliza, spurð um áskorunina sem heimurinn stendur frammi fyrir.

„Þetta er eins og jafnréttisbarátta kynjanna, það gerist greinilega ekki bara af sjálfu sér. Við tökumst ekki á við loftslagsvandann nema að við tökum meðvitaðar ákvarðanir um að takast á við vandann í sameiningu.“

„Ég held að ég hafi verið svolítið stressuð að það …
„Ég held að ég hafi verið svolítið stressuð að það væri engin starfslýsing í byrjun, eða handbók um það hvernig á að vera forsetafrú,“ segir Eliza.

Eliza segir áhrif hnattrænnar hlýnunnar áberandi á Íslandi, veturnir séu mildari, það sé minni snjór á höfuðborgarsvæðinu og jökultungan sem var alveg uppi við hringveginn er hún heimsótti landið fyrst fyrir um 20 árum sé nú 5 kílómetrum frá veginum.

Hún nefnir þó einnig dæmi um vinnuna sem er í gangi til að tækla vandann. Ísland sé til dæmis leiðandi á heimsvísu hvað varðar endurnýjanlega orkugjafa.

Ákvað að fara sínar eigin leiðir

Í þættinum er fjallað um hvernig Eliza flutti frá heimahögum sínum í Kanada til Íslands og talar nú reiprennandi íslensku, sem hefur hjálpað henni að berjast fyrir mikilvægum málefnum eins og jafnrétti kynjanna og hlutverki Íslands í að stemma stigu við hnattrænni hlýnun.

„Ég held að ég hafi verið svolítið stressuð yfir því að það væri engin starfslýsing í byrjun, eða handbók um það hvernig á að vera forsetafrú. Síðan ákvað ég að ég myndi bara fara mínar eigin leiðir.“

Loftslagsráðstefnan skynsamlegt skref

Guðni Th. Jóhannesson forseti segir í þættinum loftslagsráðstefnuna COP26, sem hefst í Glasgow á morgun, vera skynsamlegt skref.

„Það er ákall til allra þjóða um að tryggja að við höldum áfram í rétta átt og á enn meiri hraða.“

Hægt er að horfa á þáttinn í heild sinni hér fyrir neðan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert