Færri fá byggingarlóðir en vilja

Atgangur er mikill í byggingarstarfsemi á Hellu og mikill áhugi …
Atgangur er mikill í byggingarstarfsemi á Hellu og mikill áhugi er á byggingarlóðum á svæðinu, mbl.is/Óli Már Aronsson

Skipulags- og lóðamál í Rangárþingi ytra eru á fullri ferð ef svo má að orði komast. Nú í vikunni lá 101 umsókn um lóðir á Hellu fyrir fundi í byggðaráði. Á fundinum var úthlutað 15 íbúðalóðum fyrir 33 íbúðaeiningar og tveimur atvinnulóðum. Draga þurfti úr umsóknum þar sem allt að 14 umsóknir voru um sumar lóðirnar. Nú eru einungis tvær lóðir sem ekki er búið úthluta, lausar og tilbúnar á Hellu fyrir íbúðarhúsnæði. Hægt er að sjá lausar lóðir á kortasjá sveitarfélagsins.

Gríðarlegur áhugi er fyrir lóðum til íbúðar utan þéttbýlis og mikill áhugi er fyrir að breyta frístundasvæðum í íbúðabyggð. Mjög gott framboð er af lóðum til slíkra bygginga. Má þar t.d. nefna skipulögð íbúðasvæði eða landbúnaðarsvæði eins og Rangársléttu, Þjóðólfshaga, Selás, Litla-Hof og Gaddstaði. Á Gaddstöðum eru t.d. aðeins sex lóðir af 52 enn skráðar sem frístundalóðir.

Lóðum til byggingar hesthúsa í nýju hesthúsahverfi við reiðhöllina á Rangárbökkum hefur verið úthlutað til nokkurra aðila og er beðið framkvæmda þar. Sveitarfélagið hefur með gatnahönnun og lagnahönnun að gera á svæðinu og eru uppi áform um að ráðast í nauðsynlegar gatna- og veituframkvæmdir þar á næstunni. Eitt hesthús hefur þegar verið byggt en eldra hesthúsahverfið norðan til á Hellu er skilgreint sem víkjandi í skipulagi.

Í samráði með Isavia, flugmálayfirvöldum, flugklúbbnum á Hellu og sveitarfélaginu er unnið að gerð deiliskipulags fyrir flugvallarsvæðið. Gert verði ráð fyrir uppbyggingu flugtengdrar starfsemi, svo sem byggingu flugskýla á sérlóðum. Nálægð vallarins við væntanlega íbúðabyggð á Hellu hefur marga kosti og er jafnframt verið að ganga frá lagnahönnun í tengslum við uppbyggingu vallarins gagnvart hinni nýju íbúðabyggð í Ölduhverfinu. Hugsanlegt er að flugvöllurinn verði styttur til suðurs og jafnvel lengdur til norðurs ef þörf verður á.

Hafist er handa við að skipuleggja íbúðabyggð í svokölluðu Bjargshverfi, rétt vestan Ytri-Rangár gegnt Hellu. Það er svæði sem tilheyrir þéttbýlinu og verður um stærri lóðir þar að ræða með miklum möguleikum til útivistar og næðis. Gert verði ráð fyrir góðum aksturs- og göngutengingum að svæðinu og er gert ráð fyrir að byggð verði göngubrú yfir ána. Jafnframt liggur fyrir að bætt verði við göngubrú utan á núverandi brú þjóðvegarins yfir Ytri-Rangá.

Morgunblaðið/Óli Már Aronsson

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka