Kafar ofan í leyndarmálin

„Mér fannst alltaf svo gaman að heyra sögur og leyndarmál. …
„Mér fannst alltaf svo gaman að heyra sögur og leyndarmál. Það keyrði mig áfram í þessari leit að heimildum um Mortiz; ég skynjaði að á bak við ævintýralegt lífshlaup þessa manns væri spennandi saga,“ segir rithöfundurinn Ásdís Halla. mbl.is/Ásdís

Upphafið að kynnum, ef svo má að orði komast, Ásdísar Höllu og Moritz Halldórssonar má rekja til þess að Ásdís Halla eignaðist nýja fjölskyldu þegar rétt faðerni hennar uppgötvaðist.

„Þegar ég kynnist blóðfjölskyldunni fyrir nokkrum árum fer ég að heyra alls konar sögur af forfeðrum og formæðrum,“ segir Ásdís Halla og segist hafa tekið eftir áhugaverðu nafni, Moritz Halldórsson. Hún ákvað að grennslast aðeins fyrir um þennan mann.

Moritz Halldórsson sem ungur maður.
Moritz Halldórsson sem ungur maður.

„Þá fæ ég mjög óljós svör. Mér var sagt að hann hefði lært til læknis í Kaupmannahöfn, lent í vandræðum og endað í Ameríku. Ég hugsaði með mér að þarna gæti verið áhugavert leyndarmál á ferðinni þannig að ég fór að kynna mér sögu hans. Ég viðaði að mér gögnum sem vöktu æ meiri forvitni,“ segir Ásdís Halla og segist hafa varið mörgum stundum á Landsbókasafni og Þjóðskjalasafni í leit að upplýsingum. Auk þess hafði hún samband við söfn í Kanada og Bandaríkjunum, en síðast en ekki síst fann hún merkar upplýsingar í Danmörku.

„Smám saman var komin mynd af manni sem mér fannst svo ótrúlega spennandi að ég varð að skrifa þessa sögu,“ segir hún og segist hafa leitað töluvert að afkomendum hans í Bandaríkjunum sem gætu ef til vill varpað skýrara ljósi á hans líf.

Fann fjársjóð í Kaupmannahöfn

„Ég hef gaman af því að grúska,“ segir Ásdís Halla og viðurkennir einnig að forvitni sé henni í blóð borin og að leyndarmál hafi ætíð heillað.

„Ég var svo heppin að ég fékk úthlutaða fræðimannsíbúð í Jónshúsi í Kaupmannahöfn og var þar í mánuð, í miðjum Covid. Ég var búin að fá ýmis gögn en önnur fær maður ekki nema að mæta á staðinn og ég fór því í Svörtu perluna í Kaupamannahöfn og fékk þar nokkra fulla vagna af skjölum. Ég var meðal annars að leita að bréfum til Kristjáns níunda Danakonungs, Nellemans Íslandsráðherra og persónulegum bréfum innan fjölskyldu Moritz. Mér hafði verið sagt að vera ekki mjög vongóð. En ég leitaði og leitaði. Gaf mér góðan tíma og svo kom að því að ég fann fjársjóð. Ég fann bunka af bréfum og skjölum sem tengdust Moritz, en þarna voru bréf sem Íslendingar höfðu sent meðal annars konungi og ráðherra um málefni Moritz eftir mikil vandræði sem hann lenti í. Að sjá þessi skjöl og lesa var algjörlega magnað,“ segir Ásdís Halla og segist svo hafa tekið bréfin og greinar sem hún fann eftir hann og notað til að færa söguna í orð.

Ásdís Halla fann bréf og skjöl í Kaupmannahöfn sem hjálpuðu …
Ásdís Halla fann bréf og skjöl í Kaupmannahöfn sem hjálpuðu henni að skilja Moritz og þær hremmingar sem hann lenti í.

Rosalegar fyrirsagnir blaðanna

Læknirinn Moritz flæktist inn í morðmál á barnaheimili í Kaupmannahöfn og var settur í fangelsi.

„Það verður þarna blaðaumfjöllun og fyrirsagnirnar voru svakalegar, eins og „Umfangsmikil barnamorð í Kaupmannahöfn, íslenskur læknir handtekinn, fangelsaður og grunaður um aðild“. Enn þann daginn í dag eru þetta talin mestu eða næstmestu fjöldamorð Danmerkur,“ segir hún, en árið var 1890 þegar málið komst í hámæli.

„Moritz hafði farið þangað árið 1874 til að læra til læknis, en hann var dálítið óstýrilátur og fær ekki embætti á Íslandi því hann gagnrýnir embættismannakerfið harðlega. Hann var talinn of róttækur í skoðunum og í stað þess að snúa aftur heim fór hann að vinna í Kaupmannahöfn þar sem hann vann mikið með fátækum á Nörrebro. Hann leiðist svo inn í þetta snúna mál og fjölmiðlar skiptast í tvennt; annars vegar þeir sem telja hann sekan og tengjast þessum barnamorðum og hins vegar þeir sem segja að ekki séu öll kurl komin til grafar,“ segir Ásdís Halla og segir blöðin hér á landi hafa birt mjög fáar fréttir um málið af tillitssemi við fjölskyldu Moritz. Hann var af fínum ættum og málið að mestu þaggað niður.
„Það var þegjandi samkomulag hér að fjalla ekki ítarlega um málið og alls ekki í þeim æsifréttastíl sem gert var í Danmörku og í Vesturheimi. Það er svo réttað í málinu í Danmörku og dómsniðurstaðan var mjög afdráttarlaus, en nú vil ég ekki skemma of mikið fyrir lesendum,“ segir hún og brosir.

Eitt atvik getur öllu breytt

Fannst þér erfitt sem kona að setja þig í spor Moritz?

„Nei, af því að hann hafði svo mikla tjáningarþörf. Hann skrifaði ótal greinar. Um næringu, um hvernig maður ætti að klæða sig, um hvernig ætti að byggja hús, hugsa um ungbörn, forðast flensur og hann skrifaði greinar um jafnréttisbaráttu. Um aldamótin 1900 skrifaði hann grein um að konur ættu að standa saman og ættu ekki að láta slúður slá sig út af laginu. Það var ekki erfitt að fara í skóna hans; eftir alla heimildavinnuna þá þekkti ég röddina hans. Ég var farin að þekkja persónuleikann svo vel.“

„Ég reyndi að skrifa bókina þannig að fólki gæti liðið …
„Ég reyndi að skrifa bókina þannig að fólki gæti liðið eins og það væri að lesa skáldsögu,“ segir Ásdís Halla. mbl.is/Ásdís

Þetta gæti alveg verið skáldsaga, skýtur blaðamaður inn í.

„Ég reyndi að skrifa bókina þannig að fólki gæti liðið eins og það væri að lesa skáldsögu. Mér fannst mikilvægt að lesandinn gæti gleymt sér í flæðinu og orðið spenntur fyrir söguþræðinum frekar en að upplifunin væri sú að þetta væri þurr heimildaupptalning. Ég skálda sögusviðið en mikilvægustu atburðir bókarinnar eru þeir sem raunverulega gerðust í lífi Mortiz. Aftast í bókinni er svo um fimmtíu blaðsíðna eftirmáli því mér fannst mikilvægt að áhugasamir gætu kynnt sér vel heimildirnar sem sagan byggist á og séð nokkuð auðveldlega hvað er raunverulegt og hvað er skáldskapur.“

Bókin þín Ein er skáldsaga. Hvort finnst þér skemmtilegra að skrifa skáldsögu eða sögur byggðar á raunverulegum atburðum og lífi fólks?

 „Ég hef mest gaman af því að kafa ofan í líf fólks og ef ég skrifa fleiri bækur held ég að þær verði á þeim nótum að þær byggist á einhverju sem hefur raunverulega gerst. Ég hef svo gaman af því að reyna að skilja hvað keyrir fólk áfram. Skilja mann eins og Moritz. Að skilja hvað verði til þess hrifnæmir hugsjónamenn misstíga sig svo hrapallega. Mér finnst það mjög áhugavert,“ segir hún og segir að oft geti ein afdrifarík ákvörðun mótað líf fólks.

Moritz bjó í þessu húsi í Norður-Dakóta eftir að hann …
Moritz bjó í þessu húsi í Norður-Dakóta eftir að hann neyddist til að fara frá Danmörku.

„Hann var efnilegur læknir í Kaupmannahöfn þar sem lífið lék við hann og framtíðin blasti björt við. Svo gerist eitthvað eitt, bara eitt, og þá fer af stað önnur atburðarás sem enginn gat séð fyrir. Hlutir gerast og atburðarás tekur öll völd og skyndilega er ekkert eins og það var. Það eru þessar krossgötur í lífinu sem eru svo áhugaverðar. Eitt lítið atvik sem getur breytt öllu.“


Ítarlegt viðtal er við Ásdísi Höllu í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina og einnig geta áskrifendur horft á vitðalið í Dagmálsþætti sem sýndur verður 1. nóvember. 


Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert