Birgir Ármannsson, formaður undirbúningsnefndar fyrir rannsókn kjörbréfa, staðfestir að nefndinni hafi borist í vikunni þær ljósmyndir sem þrír starfsmenn Hótels Borgarness tóku af innsigluðum kjörgögnum á talningastað. Hann segir ljósmyndirnar sjálfar engu breyta við rannsókn nefndarinnar.
„Nei þetta breytir engu vegna þess að þetta voru upplýsingar sem lágu alveg fyrir, að það var um einhverjar svona myndatökur að ræða,“ segir Birgir í samtali við mbl.is.
Hann segir að vitað hafi verið að þessar myndir hefðu verið teknar og að það hefði komið fram í athugun lögreglu strax á fyrstu stigum rannsóknarinnar og einnig þegar nefndin fór í vettvangsferð.
Myndirnar höfðu verið teknar er yfirkjörstjórn hafði verið fjarverandi og sýndu þær að kjörgögnin höfðu ekki verið geymd í lokuðum kössum eða undir innsigli á þeim tíma sem yfirkjörstjórnin var fjarverandi.
„Þessar myndir bárust fyrir einhverjum dögum síðan en þær út af fyrir sig segja ekki neitt sem ekki var vitað fyrir.“