Enn liggur einn í öndunarvél á Landspítala vegna Covid-19 smits og fjöldi þeirra sem liggur inni á gjörgæslu helst sá sami, eða fjórir. Þetta staðfestir Már Kristjánsson, yfirlæknir á Covid-19-göngudeild spítalans, í samtali við mbl.is.
Már segir þá að tveir hafi losnað út af gjörgæslu í gær en þá hafi tveir aðrir einstaklingar lagst inn í staðinn. „Nettóstaðan helst því sú sama,“ segir Már.
Farsóttarnefnd Landspítalans, sem Már fer með formennsku í, sendi í gær frá sér tilkynningu þar sem viðraðar voru áhyggjur af fjölda smita í samfélaginu og þeim innlögnum sem þeim fylgja. Þar var bent á að „nýlegar afléttingar mildra og skynsamlegra sóttvarnaaðgerða hafi ekki reynst vel, hvorki á Íslandi né annars staðar“.
Hvort verður af fullri afléttingu takmarkana þann 18. nóvember verður að teljast ólíklegra með hverjum deginum sem líður.