Sjálfsmyndir krabbameins

Guðný Ragnarsdóttir sýnir sjálfsmyndir í Gallerý 16 en þær teiknaði …
Guðný Ragnarsdóttir sýnir sjálfsmyndir í Gallerý 16 en þær teiknaði hún í miðri krabbameinsmeðferð á árunum 2016-17.

Andlitsmyndir teiknaðar í miðri krabbameinsmeðferð eru nú sýndar í Gallerí 16 á Vitastíg. Guðný Ragnarsdóttir skrásetti veikindin sín með því að teikna sjálfa sig.

Myndlistarsýning Guðnýjar Ragnarsdóttur er unnin upp úr dagbók sem hún hélt í máli og myndum þegar hún var í krabbameinslyfjameðferð.

„Ég er læknuð af krabbameini í dag,“ segir Guðný en hún barðist við Hodgkins-eitlakrabba á árunum 2016-2017, þá um 35 ára gömul.

Fann þessa köllun

„Í meðferðinni fór ég fyrst í ellefu lyfjagjafir og svo var meðferðin hert og þá var mér allri lokið og fer þá að átta mig á að ég færi ekkert auðveldlega út úr þessu. Það var þá sem ég fór að teikna. Þá stóð ég fyrir framan spegilinn með blýantinn og teiknaði sjálfa mig, og úr varð eins konar dagbók eftir því sem myndunum fjölgaði. Ég var einn og hálfan tíma að teikna fyrstu myndina en tíu mínútur að teikna síðustu en það var miklu meiri orka sem fór í að teikna hana,“ segir Guðný en hún varð veikari og veikari eftir því sem leið á meðferðina.
„Ég þekkti ekki neitt af þessu sem ég var að teikna; nef og útlínur andlits sem ég sá í speglinum. Ég þurfti að fara nær speglinum til að sjá að bláu augun voru enn til staðar,“ segir Guðný.

Guðný var heilt ár að berjast við eitlakrabba og hafði …
Guðný var heilt ár að berjast við eitlakrabba og hafði betur.

„En það var nánast það eina sem var orðið eftir því þarna var ég í einangrun og hafði ekki borðað í marga daga og var hálfrænulaus. Ég upplifði að ég væri óþekkjanleg. Ég skalf öll að innan og rétt náði að pára á blað. Ég fann þessa köllun og ég teiknaði líka til að átta mig á stöðunni. Þetta var mín tenging við þetta ferli.“

Fólk grét á opnuninni

„Ég hélt sýningu á þessum myndum í A4-stærð í Ljósinu á sínum tíma og strax þá dreymdi mig um að fá stærra rými fyrir myndirnar,“ segir Guðný og segist hafa stokkið á tækifærið þegar henni bauðst að sýna í Gallerí 16 á Vitastíg 16, en sýningin stendur til þriðja nóvember.

„Ég tók þá ákvörðun um að stækka myndirnar upp eins og ég gæti. Myndirnar eru það stórar og salurinn lítill að fólk kemst ekkert undan og það verður fyrir hughrifum,“ segir Guðný en hún sýnir fimm stórar myndir auk átta minni og eins málverks.

Hér má sjá eina af sjálfsmyndum Guðnýjar. Hún segist varla …
Hér má sjá eina af sjálfsmyndum Guðnýjar. Hún segist varla hafa þekkt sjálfa sig þegar hún leit í spegil þegar hún var sem veikust.

Guðný bjóst ekki við þeim viðbrögðum sem gestir sýndu á opnuninni.

„Það var ótrúlegt að upplifa þetta. Fólk fór bara hreinlega að gráta um leið og það kom upp tröppurnar. Ég var með fólk í faðmlögum, hvort sem ég þekkti það eða ekki, og margir fengu tár í augun,“ segir Guðný og segist sjálf hafa náð að loka á þennan erfiða kafla í lífi sínu með þessari sýningu.

„Nú get ég svolítið sleppt þessu. Nú finnst mér þetta vera búið,“ segir hún og segir um teikningarnar: „Þetta er ekki ég; ég er ekki krabbameinið. Þetta eru andlit sem ég hef átt en er ekki ég í dag.“

Ítarlegt viðtal er við Guðnýju í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert