Töluverður fjöldi fólks hefur gert sér ferð austur fyrir fjall til þess að berja augum langreyðina, sem nú liggur á ströndinni við Þorlákshöfn. Hræið verður urðað eftir helgi.
„Það er bara smekkfullt þarna niðri í fjöru, sennilegast um hundrað manns akkúrat núna,“ segir Grétar Ingi Erlendsson, forseti bæjarráðs í Ölfusi.
Hann segir ljóst að margir hafi ákveðið að nýta helgarbíltúrinn í að skoða hræið. Þá nýti margir ferðina til þess að rölta um bæinn og kíkja í sund. Sveitarfélagið sendi í gær út tilkynningu þess efnis að almenningur gæti skoðað hræið um helgina áður en það yrði urðað.
Grétar Ingi segir enn fremur að óþefur sé af hræinu og því mikilvægt að urða það eftir helgi, eins og til stendur að gera. Ánægjulegt sé engu að síður að sjá svona marga gera sér ferð niður í fjöru, sem að sögn Grétars er „falin náttúruperla“.
Það hefur ekkert borið á því að menn taki hreinlega með sér grill þarna niður eftir og búi til einskonar bæjarhátíðarstemningu?
„Nei, ég hef reyndar ekki verið var við það, en það gæti hins vegar verið góð hugmynd,“ segir Grétar léttur.