„Þá verður hann gleymdur og grafinn“

Líklegast er að hvalurinn verði grafinn á staðnum.
Líklegast er að hvalurinn verði grafinn á staðnum. mbl.is/Óttar

Stefnt er að því að urða hvalshræið sem nú liggur á ströndinni við Þorlákshöfn eftir helgi. Vænlegasti kosturinn við urðun að mati Sverris Daníels Halldórssonar, líffræðings hjá Hafrannsóknarstofnun Íslands, er að grafa hvalinn þar sem hann liggur.

„Þetta er náttúrulega í höndum Umhverfisstofnunar og heilbrigðiseftirlitsins að taka ákvörðun um urðun en eins og staðan er þarna þá sýnist mér besti kosturinn að grafa hann einfaldlega á staðnum,“ segir Sverrir spurður hvernig álitlegast sé að bera sig að urðun á hræinu.

Of aðgrunnt til að draga hræið út á haf

Hann bendir þá á að þetta sé ekki eini valmöguleikinn en stundum sé brugðið á það ráð að draga hvalshræ út á haf aftur. Það sé samt ekki vænlegur kostur þar sem afar aðgrunnt sé í fjörunni við Þorlákshöfn.

Sverrir telur ekki gáfulegt að búta hvalinn niður enda best að ná taki á sporðinum „ætli menn sér á annað borð að færa hann eitthvað til“.

Gleymdur og grafinn

Enginn formlegur tímarammi sé til staðar hvað varðar urðun á hvalshræjum sem skola upp á land. Það sé aðstæðubundið hverju sinni.

Spurður hve djúpt þurfi að grafa segir hann að um eins metra lag þurfi að vera yfir honum að lágmarki. Þegar búið sé að grafa hræið verði engin ummerki um það. „Þá er hvalurinn bara gleymdur og grafinn.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert