Veitt eftirför á yfir 160 km hraða

Ökumaður bifreiðar stöðvaði ekki við merkjagjöf lögreglunnar í Árbænum í Reykjavík um tvöleytið í nótt.

Eftirför hófst þar sem bifreiðinni var ekið á yfir 160 km hraða á klukkustund og meðal annars ítrekað á móti umferð.

Bifreiðin stöðvaði síðan og náði ökumaðurinn að hlaupa frá vettvangi. Lögreglumenn telja sig þekkja ökumanninn, að því er kemur fram í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

Án öryggisbeltis og ökuréttinda

Um fjögurleytið í nótt var bifreið stöðvuð í miðbæ Reykjavíkur þar sem ökumaðurinn notaði ekki öryggisbelti. Ökumaðurinn reyndist vera án ökuréttinda og hafði hann aldrei öðlast þau. Ökumaðurinn hafði engin skilríki meðferðis og var hann því færður á lögreglustöð til að staðfesta hver hann væri.

Bifreið var stöðvuð í hverfi 108 um níuleytið í gærkvöldi þar sem ökumaðurinn notaði farsíma undir stýri. Skýrsla var rituð vegna málsins.

Ók á 117 km hraða

Laust fyrir klukkan eitt var bifreið stöðvuð á Kringlumýrarbraut eftir hraðamælingu á 117 km hraða þar sem hámarkshraði er 80 km á klst. Ökumaðurinn er grunaður um akstur undir áhrifum áfengis og fíkniefna. Hann var látinn laus að lokinni skýrslutöku.

Önnur bifreið var stöðvuð á 114 km hraða á Kringlumýrarbraut um tíuleytið. Ökumaðurinn viðurkenndi brotið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert