Bjartur vígahnöttur yfir Faxaflóa í kvöld

Vígahnöttur.
Vígahnöttur. Ljósmynd/Twitter

Bjartur vígahnöttur sást uppi á himninum rétt fyrir kl. 21 í kvöld yfir Faxaflóa.

Sjónarvottar segja hann hafa verið bjartan og glitrað í grænum, bláum og fjólubláum litum skært áður en hann féll ofan í sjóndeildarhringinn.

Sævar Helgi Bragason, oft þekktur sem Stjörnu-Sævar, segir í samtali við mbl.is að hann hafi „því miður ekki tekist að sjá hann sjálfur,“ en miðað við lýsingar sjónarvotta finnist honum líklegast að um sé að ræða litla steinvölu utan úr geimnum sem brann upp í andrúmsloftinu í um 60-100 kílómetra hæð.

Sævar Helgi Bragason, oft þekktur sem Stjörnu-Sævar.
Sævar Helgi Bragason, oft þekktur sem Stjörnu-Sævar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Fleiri augu beinast til himins

„Þetta gerist náttúrulega alltaf annað slagið og akkúrat þegar það er heiðskýrt og fínt veður eins og núna og fleiri augu beinast til himins þar sem norðurljósin hafa verið björt og áberandi, þá kannski tekur fólk oftar eftir björtum og fallegum stjörnuhröpum,“ segir Sævar. 

Þá heyrist honum á öllu að um sé að ræða tiltölulega bjartan vígahnött.

Spurður hvað ræður því hversu skært vígahnettirnir skína segir Sævar að það sé oftar stærð heldur en nálægð frá jörðu. Litir blossans gefi okkur síðan upplýsingar um efnasamband hans.

Einn sjónarvottur greindi frá atburðinum á twittersíðu sinni í kvöld:

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert