Ég elska að sigra!

Högni Egilsson tónlistarmaður og tennisleikari.
Högni Egilsson tónlistarmaður og tennisleikari. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ég er alveg búinn að leggja körfuboltaskónum og kominn á bólakaf í tennis; kominn með ennisbandið og í hvíta Wimbledon-búninginn. Það er mikið zen í tennis – eins og bogfimi – og stíll yfir öllum hreyfingum, sem höfðar til mín. Svo er auðvitað fyrir hendi aldagamalt hjónaband milli tennis og tónlistar.“

Þetta segir Högni Egilsson tónlistarmaður í samtali við Sunnudagsblað Morgunblaðsins. 

Högni var mikið í íþróttum sem barn og unglingur en hætti því síðan í nokkur ár. Nú er hann snúinn aftur – af fullum krafti. „Ég er dellukall í öllu sem ég tek mér fyrir hendur. Núna er ég til dæmis kominn með grill á svalirnar og loksins orðinn fullorðinn maður. Ég hef gjörsamlega gleymt mér í tennisnum og get ekki beðið eftir að komast í æfingaferð til Napólí eftir sinfóníutónleikana. Í tennis er maður í stöðugu samtali við sjálfan sig; þetta er einhver matrixa. Boltinn er á stöðugri hreyfingu og bregðast þarf bæði við hinu fyrirsjáanlega og hinu ófyrirséða. Lífið er allt þar á milli. Nú heyrist mér ég vera farinn að tengja tennisinn við líf og dauða. Við erum að tala um dulspeki tennisins.“

Hann hlær.

Tek með mér yfir í tónlistina

– Ég hef heimildir fyrir því að þú sért heldur ekki bara að þessu til að vera með.

„Það er alveg rétt,“ svarar hann hlæjandi. „Ég elska að sigra. Það tek ég líka með mér yfir í tónlistina. Það er til dæmis ekkert auðvelt að semja sinfóníu – en ég skal samt gera það! Þetta heimili þekkir lítið annað en mikið keppnisskap, alla vega ekki síðustu árin. Það er samt mikilvægt að skilja tilfinningarnar eftir inni á vellinum en burðast ekki með þær áfram. Maður má heldur ekki tileinka sér sársauka annarra og í hópíþrótt þarf að skilja hver staður manns er og hvenær hetjuför manns á að hefjast.“

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert