Á Háaleitisbraut í fallegri blokk teiknaðri af meistaranum Sigvalda Thordarsyni hefur venjulegri íbúð verið breytt í vinnustofu og verslun Spaksmannsspjara. Þar tekur fatahönnuðurinn Björg Ingadóttir á móti blaðamanni og býður upp á kaffi. Hún er eigandi Spaksmannsspjara, fyrirtækis sem hún hefur átt og rekið í tæp þrjátíu ár. Í dag er hún með opið tvo daga í viku auk þess að halda úti vefsíðu, en kórónuveirufaraldurinn setti strik í reikninginn hjá Björgu. Hún sat þó ekki auðum höndum.
„Ég nýtti Covid vel til að fara yfir verkferla. Ég ákvað að taka skrefið og vinn nú á algjörlega nýjan hátt. Það tekur auðvitað tíma að þróa og læra og það er erfitt að halda í gamla kerfið á meðan maður er að skipta yfir í nýtt kerfi. Nú er ég komin nokkuð langt í því ferli.“
Björg útskýrir umskiptin sem hafa orðið á vinnulagi tískuhönnunar.
„Áður bjó maður til snið á borði og sendi utan með flugi. Það var allt saumað erlendis og efnin öll þaðan, enda ekki til saumaverksmiðjur hér, einungis nokkrar litlar saumastofur,“ segir hún.
„Ég vil gera allt stafrænt en nú eru efnin orðin stafræn þannig að ég get saumað úr þeim í tölvu,“ segir Björg og blaðamaður skilur ekki alveg hvað hún á við.
Björg fer í saumana á málinu.
„Ég get saumað úr ýmsum efnum í tölvunni og sé þá hvernig reynir á efnið, hvort sem það er silki, ull, leður eða eitthvað annað. Ég hleð niður stafrænum efnum frá framleiðendum áður en ég kaupi prufulengjur af alvöruefni í lokaprufu,“ segir Björg og útskýrir að búið sé að búa til forrit þar sem eiginleikar efnisins eru teknir með í reikninginn.
„Hvernig þau teygjast, krumpast og falla að líkamanum. Ég fæ pínulitlar prufur sem ég get snert, sendar til mín í litlum skókassa. Þannig að núna þarf ég ekki að fá efnin send hingað heim heldur kemur bara lokaprufa fyrir framleiðslu, en áður voru efni send fram og til baka um allan heim. Nú er það liðin tíð. Kolefnissporið minnkar og minnkar.“
Fleiri framfarir hafa orðið nýlega á sviði fatahönnunar en á heimasíðu Spaksmannsspjara er nú hægt að „máta“ fötin áður en þau eru keypt. Björg segir það vera byrjunarútfærslu á þessu sviði en þróunin er mjög hröð og reiknar hún með að það verði hægt að treysta þessum „mátunum“ fullkomlega innan skamms.
„Fötin eru orðin stafræn. Fólk býr til sinn „avatar“; stillir sín mál og prófar svo fötin á hann. Þá kemur upp hitamynd og þá sérðu hvort önnur stærð fer þér kannski betur,“ segir Björg og sýnir blaðamanni hvernig kjóll situr á stafrænni gínu. Þar sést rauður litur í handarkrika og sýnir þá að þessi kjóll er of þröngur þar á viðkomandi viðskiptavin. Grænn litur gefur til kynna að kjóllinn liggi þar þægilega á konunni.
„Í dag eru föt send út um allan heim sem passa ekki á nokkurn mann. Þetta er mikil sóun. Það sem ég er að gera með þessu er að minnka mín fótspor og draga úr sóun, ekki bara hjá mér heldur líka hjá neytandanum,“ segir Björg og segir að allt of miklu af fötum sé hent í heiminum.
„Sem stendur er ég með stafræn módel úr forritinu sem ég nota en næsta stig er að búa mér til mín eigin módel því ég get leigt stafræn módel á stafrænum módelskrifstofum. Módelin eru líka að missa vinnuna,“ segir Björg og segist koma til með að geta búið til módel á mismunandi aldri og með mismunandi vaxarlag.
„Þetta er bara byrjunin því það er hægt að búa til tískusýningar og láta módelin ganga. Mig langar mikið til að gera stóra stafræna tískusýningu.“
Björg segir að í náinni framtíð muni neytendur geta búið sér til sína eigin stafrænu gínu og hægt verði að hlaða henni niður á netsíður hvaða verslana sem er.
„Ég bý til stafræn föt sem fara í framleiðslu en ég gæti líka selt einungis stafræn föt. Þú gætir þá til dæmis verið á netfundi í stafrænum fötum frá mér. Fólk gæti líka keypt fötin og notað á myndum á Instagram, en keypt ekki fötin sjálf, heldur lúkkið,“ segir Björg.
„Ég er að vona að ég verði komin svo langt að ég geti sett næstu línu sem verður tilbúin hjá mér beint á netið og boðið til sölu áður en hún verður framleidd. Þá erum við komin með alvöruvörustjórnun og endum ekki með úreltan lager og ósjálfbæra útsölumenningu,“ segir Björg.
Björg er afar ánægð með þróunina og sér tækifæri þar á hverju strái.
„Ég upplifi mikið frelsi og finnst geggjað að vera laus við allar þessar vélar, papparúllur og löngu sníðaborð. Mig langar nú að mín vara verði meira pöntuð áður en hún er framleidd,“ segir hún.
Ítarlegt viðtal er við Björgu í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina.