Gríðarlegt álag var á sjúkrabílum slökkviliðsins á höfuðborgarsvæðinu í nótt. Sem dæmi voru fjórir til sex sjúkrabílar stöðugt í miðbæ Reykjavíkur frá miðnættis til klukkan þrjú.
„Það er langt síðan maður hefur séð svona „gleði“,“ segir varðstjóri slökkviðsins í samtali við mbl.is.
Bílarnir sex voru helmingur af öllum tiltækum sjúkrabílum þessa nóttina. Í færslu slökkviliðsins á Facebook segir að fari hinir sex út sé einn slökkviliðsmaður eftir til að bregðast við í borginni, sú var raunin í Skógarhlíð klukkan hálfþrjú í nótt.
Sjúkraflutningar voru 119 síðasta sólarhringinn, þar af 39 forgangsflutningar. Covid-flutningar voru 17 talsins.