Aðalfundur Samtaka leigjenda fór fram í gær og ný stjórn kjörin. Þetta segir í tilkynningu frá samtökunum.
Á fundinum var nýkjörinni stjórn falið að undirbúa leigjendaþing í febrúar eða mars á næsta ári og fjölga félögum samtakanna.
Markmið nýrrar stjórnar verði meðal annars að „efna til umræðu um stöðu leigjenda, húsnæðismarkaðinn almennt, samanburð við önnur lönd og hvað gera megi hérlendis til að bæta kjör og réttindi leigjenda“.
„Staða leigjenda er of veik, réttindi þeirra lítil og húsnæðiskostnaður of hár,“ segir jafnframt í tilkynningunni.
Þá voru þau Anita Da Silva Bjarnadóttir, Guðmundur Hrafn Arngrímsson, Guðrún Vilhjálmsdóttir, Gunnar Smári Egilsson, Haraldur Ingi Haraldsson, Laufey Líndal Ólafsdóttir, Rán Reynisdóttir, Vilborg Bjarkadóttir, Yngvi Ómar Sighvatsson og Þórdís Bjarnleifsdóttir kjörin í stjórn og varastjórn samtakanna.