Hjónin Kristján Stefánsson og Steinunn Margrét Lárusdóttir eru bæði lögmenn og hann með málflutningsréttindi fyrir Hæstarétti. Þrír synir þeirra eru líka hæstaréttarlögmenn og vinna með föður sínum hjá KRST lögmönnum í Hafnarhvoli í Reykjavík og sá fjórði, sem er jarðfræðingur að mennt og sérfræðingur í byggingarframkvæmdum, er nýbyrjaður að vinna á stofunni með föður sínum og bræðrum. „Ég beitti útilokunaraðferðinni, mér fannst fráleitt að elta vini mína í læknisfræðina og lögfræðin varð því fyrir valinu en ég hafði engin áhrif á námsval sonanna, þeir fundu fjölina sína sjálfir,“ segir Kristján. „Fyrirtækið er með víðtæka starfsemi og hér hafa þeir næg verkefni við hæfi.“
Kristján útskrifaðist úr lögfræðideild Háskóla Íslands 1974. Hann stofnaði eigið fyrirtæki 1. júní 1975 og hefur rekið það síðan. „Ég var ekki með tilskilin málflutningsréttindi og því skráði ég mig hjá Hilmari Ingimundarsyni vini mínum. Hann leppaði fyrir mig þar til ég var kominn með réttindin skömmu síðar, en við deildum skrifstofu þar til hann féll frá 2010.“
Stefán Karl byrjaði að vinna með föður sínum 2006, Páll gekk til liðs við þá 2009, Jón Bjarni 2011 og Gunnar um nýliðin mánaðamót. „Við rekum þessa lögmannsstofu saman,“ áréttar Kristján. „Auk þess að veita fjölþætta þjónustu erum við með húseigendaþjónustufélagið Fjöleignir.
Fjölskyldan hefur alla tíð verið náin,“ segir Kristján, sem fæddist í Valhöll á mótum Hringbrautar og Suðurgötu og hefur ávallt búið í Vesturbænum. Sömu sögu er að segja um búsetu sonanna, nema hvað Páll er nýfluttur í Hafnarfjörð.
Þeir hafa allir látið að sér kveða í Knattspyrnufélagi Reykjavíkur. Skákdeild félagsins var stofnuð 1999 og hefur Kristján verið formaður hennar frá byrjun. Hann segir að starfsemin hafi verið mjög öflug en utanaðkomandi þættir eins og covid hafi sérstaklega bitnað á barna- og unglingastarfinu. „Við höldum skákkennslunni gangandi enda er þetta mikilvæg starfsemi, vel til þess fallin að vera lím í góðu og stóru félagi.“ Páll er formaður knattspyrnudeildarinnar, Jón Bjarni er ritari aðalstjórnar og báðir eru þeir í byggingarnefnd félagsins. Stefán Karl var lengi fótboltaþjálfari yngri flokka og Gunnar er nú í því hlutverki.
„Strákarnir mínir og vinir þeirra stofnuðu Knattspyrnufélag Vesturbæjar við eldhúsborðið heima fyrir 17 árum og ég held að það sé mjög góð vagga fyrir KR, en Palli var fyrsti formaður og þjálfari KV,“ vekur Kristján athygli á. „Skrifstofan og KR eru okkar annað heimili og segja má að við höfum aldrei farið að heiman, nema hvað ég hef átt fast sæti daglega við háborðið á Kaffivagninum í 30 ár.“