Soffía Steingrímsdóttir, sem hefur starfað sem hjúkrunarfræðingur á bráðamóttöku Landspítalans síðustu sex ár, segir ekki vera hægt að sinna fólki sem þangað kemur svo vel sé. Hún bætir við að hún sé orðin lúin.
Soffía, sem veitti mbl.is góðfúslegt leyfi til að birta færslu hennar á Facebook, segir álagið hafa vaxið og tilgreinir ýmsar ástæður fyrir því. Hún nefnir einnig að eftir að hjartagátt var flutt yfir á bráðamóttöku hafi þau byrjað að taka á móti þeim sjúklingum.
„Og kæru landar, alls ekki fara í geðrof eða fá sjálfsvígshugsanir eftir kl 17 því þá er búið að loka geðdeild. Allir sem eru í bráðum vanda vegna áfengis og lyfja koma til okkar… allir sem eru beittir ofbeldi og vilja aðstoð koma til okkar. Og við vísum engum frá sem þarf á aðstoð að halda,“ skrifar hún á Facebook og spyr hvernig eigi að hugsa um allt þetta fólk við þessar aðstæður.
Sjúklingar liggi á göngunum, bjallan hringi látlaust sem starfsfólkið hafi ekki undan að svara.
„Ég hef unnið í milljónaborgum á bráðamóttöku við dálítið aðrar aðstæður þar sem við vorum ekki að reka 1-2 legudeildir til viðbótar. Þar var hægt að sinna starfi sínu. Í smáborginni Reykjavík er ekki hægt að sinna fólki á bráðamóttöku svo vel sé,“ bætir hún við.
„Ég veit ekki hvað þarf að gerast svo einhver heyri og skilji það sem við erum að reyna að greina frá. En já …það má kalla það svo að við séum ,, lúin”…“
Tómas Guðbjartsson hjartaskurðlæknir tekur í sama streng í sinni færslu á Facebook þar sem hann líkir ástandinu á Landspítalanum við lekt fley í öldugangi.
Hann segir jafnframt „algjörlega óábyrgt“ að ætla að aflétta öllum takmörkunum vegna Covid-19 hér á landi.