Öskraði inni í mér þegar ég vann

Margrét Júlía og Kristín Erla leika stór hlutverk í kvikmyndinni …
Margrét Júlía og Kristín Erla leika stór hlutverk í kvikmyndinni Birtu sem frumsýnd er 5. nóvember og vilja báðar verða leikkonur þegar þær verða stórar. mbl.is/Ásdís

Kristín Erla Pétursdóttir og Margrét Júlía Reynisdóttir eru ungar leikkonur sem báðar hafa nýlega hlotið viðurkenningar erlendis fyrir leik sinn. Þær leika í Birtu, nýrri íslenskri barna- og fjölskyldumynd.

Leikkonurnar ungu, Kristín Erla, tólf ára, og Margrét Júlía, bráðum átta, segja það hafa verið afar skemmtilegt að leika í kvikmynd, en þær leika systurnar Birtu og Kötu í kvikmyndinni Birtu.

Safna hundrað þúsund

„Það var mjög góð upplifun að leika í myndinni og mjög gaman,“ segir Kristín Erla og Margrét Júlía tekur undir það.

Salka Sól Eyfeld leikur móðurina í Birtu á móti Kristínu …
Salka Sól Eyfeld leikur móðurina í Birtu á móti Kristínu Erlu Pétursdóttur.

„Myndin var tekin upp fyrir einu ári og tökurnar tóku tvær vikur. Það var ekki erfitt að muna línurnar en það var ein sena sem var svolítið erfið því hún var svo löng,“ segir Margrét Júlía.

„Já, það var líka ein erfið sena hjá mér því hún var mjög dramatísk. Það var erfitt að fatta hvernig ég ætti að leika hana. Ég reyndi að setja mig í spor Birtu,“ segir Kristín Erla og segir að í myndinni lendi Birta í hremmingum þegar hún reynir að safna hundrað þúsund krónum. Hún vill þó ekki gefa of mikið upp um söguþráðinn, en þær mega þó upplýsa smávegis um söguna.

„Við erum að reyna að safna pening fyrir mömmu okkar því Birta heyrir mömmu segja í símann að hún sé blönk,“ segir Margrét Júlía og segir móðurina áhyggjufulla að geta ekki haldið almennileg jól sökum peningaleysis.

Margrét Júlía og Kristín Erla eru hér í hlutverkum sínum …
Margrét Júlía og Kristín Erla eru hér í hlutverkum sínum sem Kata og Birta í kvikmyndinni Birtu.

„Við hjálpumst að við að reyna að safna pening,“ segir Margrét Júlía, en þess má geta að móðir hennar Helga Arnardóttir skrifar handrit myndarinnar og stjúpfaðir hennar Bragi Þór Hinriksson leikstýrir.

Dreymir um leikferil

Hafið þið leikið einhvers staðar áður?

„Nei, ekki ég, þetta var mitt fyrsta hlutverk. En svo lék ég líka í þáttum sem heita Kanarí og ég man ekki alveg hvort það var fyrir eða eftir Birtu,“ segir Margrét Júlía.
„Ég hef verið í þáttum í KrakkaRúv og eins tekið þátt í leikritum í dansskólanum mínum því ég er í söngleikjadeild þar, en ég er í dansskóla Birnu Björns,“ segir Kristín Erla.
Stelpurnar segjast báðar hafa mikinn áhuga á leiklist.
Viljið þið verða leikkonur?
„Já, ég alla vega vona það. Mig hefur oft dreymt um að verða leikkona,“ segir Margrét Júlía.
„Það hefur alltaf verið stór draumur síðan ég var krakki, að verða leikkona. Það er ein í fjölskyldunni minni sem er leikkona sem heitir Guðríður og ég lít upp til hennar,“ segir Kristín Erla.
„Amma mín er leikkona og hún leikur Grétu í myndinni en hún heitir Margrét Ákadóttir,“ segir Margrét Júlía sem er alveg til í að feta í fótspor ömmu sinnar.

Stelpurnar hafa séð myndina en hún verður frumsýnd í kvikmyndahúsum Senu á Íslandi 5. nóvember og á Símanum Premium 25. nóvember.

Ótrúleg upplifun að vinna

Leikkonurnar hafa báðar nýlega unnið til virtra verðlauna á barnakvikmyndahátíðum í Þýskalandi. Kristín Erla var valin besta leikkonan í hópi ungmenna þvert á aldursflokka frá 7-18 ára á Schlingel í Chemnitz í Þýskalandi, einni stærstu barnakvikmyndahátíð í Evrópu, og þótti hún bera af. Margrét Júlía var síðan valin besta unga leikkonan á KIKI-Fe, einni stærstu barnakvikmyndahátíð í Suður-Þýskalandi.

Hvernig var tilfinningin að vinna til verðlauna úti í heimi?

„Ég var á bókasafni á Siglufirði um daginn þegar ég fékk að vita þetta. Ég gat ekki öskrað af því ég var á bókasafni og þurfti því að öskra inni í mér,“ segir Margrét Júlía og leikur með dramatískum hætti hvernig maður öskrar inni í sér.

Báðar hafa þær hlotið viðurkenningar sem bestu leikkonur á barnakvikmyndahátíðum …
Báðar hafa þær hlotið viðurkenningar sem bestu leikkonur á barnakvikmyndahátíðum í Þýskalandi fyrir leik sinn í Birtu.

Kristín Erla var stödd í stórum sal á kvikmyndahátíðinni Schlingel þegar nafnið hennar var kallað upp henni að óvörum.

„Ég bjóst ekkert við þessu! Þetta var ótrúleg upplifun. Ég átti alls ekki von á því að vinna. Heilinn minn var smá stund að átta sig á þessu.“

Ítarlegt viðtal er við leikkonurnar ungu í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert