Lágtíðniskjálftar hafa haldið áfram að mælast á Torfajökulssvæðinu en fara nú minnkandi, að sögn Lovísu Mjallar Guðmundsdóttur, náttúruvársérfræðings á Veðurstofu Íslands.
„Það eru um það bil fjórir skjálftar að koma á klukkutíma, þannig að það er að draga úr þessu,“ segir Lovísa Mjöll.
Skjálftarnir hafa mælst á svæðinu frá því að fyrstu mælar voru settir upp árið 1986 en virknin undanfarið hefur verið sérstæð að því leyti að hún var afar reglubundin og áköf.
Þá segir Lovísa að ekki hafi verið nægjanlega gott skyggni í gær fyrir vísindaflug sem var áformað í grennd við Torfajökul um helgina. Því verður reynt aftur í dag.
Þar verður skoðað hvort áberandi breytingar hafa orðið á yfirborðsvirkni á jarðhitasvæðum og teknar verða myndir af svæðinu til að nota við samanburð síðar.