Vilja bann við njósnaauglýsingum

Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna.
Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna. mbl.is/Sigurður Bogi

Aðalfundur Neytendasamtakanna fór fram í gær þar sem sjálfkjörið var í stjórn samtakanna, en kosið er ár hvert um helming stjórnarmanna og sitja þeir í tvö ár.

Formannskjör fer fram annað hvert ár og fór ekki fram nú. Þetta kemur fram í tilkynningu.

Aðalfundurinn samþykkti fjórar ályktanir, um dýrtíðarhættu, valfrelsi og stuðning við bændur, bann við njósnaauglýsingum og hvatningu til stjórnvalda og löggjafans.

Neytendur verði á varðbergi

Fram kemur í tilkynningunni að aðalfundur Neytendasamtakanna beinir því til fyrirtækja og forsvarsmanna hagsmunasamtaka atvinnulífsins að hækka ekki vöruverð til neytenda í þeim aðstæðum sem nú ríkja.

Við tímabundnum hækkunum hrávöruverðs og flutningstruflana af völdum kórónuveirufaraldursins, verði fyrirtæki þess í stað að hagræða, lækka álögur og draga úr arðsemiskröfum. Þá beinir aðalfundur því til stjórnvalda að afnema alla tolla til að stemma stigu við verðhækkunum.

Aðalfundurinn tekur undir áskorun Samkeppniseftirlitsins nýverið til neytenda um að vera á varðbergi og tilkynna þegar þeir verða varir við óeðlilegar verðhækkanir eða grunar að fyrirtæki fari á svið við samkeppnislög.

Neytendasamtökin telja mikilvægt fyrir neytendur að stundaður sé öflugur landbúnaður á Íslandi og vekja athygli á því að neytendur velja gjarna innlenda framleiðslu fram yfir erlenda að öðru jöfnu. Valfrelsi er á hinn bóginn grundvallaratriði.

Þá kemur fram að fundurinn hvetur íslensk stjórnvöld til að tryggja stafræn réttindi neytenda á veraldarvefnum og beita sér á alþjóðavettvangi fyrir banni við netauglýsingum sem byggja á persónusniði og eftirliti með notendum.

Þá hvetur aðalfundur Alþingi og ríkisstjórn Íslands til að gera neytendamálum hátt undir höfði á kjörtímabilinu sem er að hefjast, enda liggi fyrir mörg brýn neytendamál sem varða almenn lífskjör.

Stjórnarmenn sem kjörnir voru til ársins 2023 eru Gunnar Alexander Ólafsson, Hildigunnur Hafsteinsdóttir, Liselotte Widing, Sigurður Másson, Þórarinn Stefánsson og Stefán Hrafn Jónsson.

Stjórnarmenn sem sitja áfram að næsta aðalfundi eru þau Auður Alfa Ólafsdóttir, Guðjón Sigurbjartsson, Guðmundur Gunnarsson, Helga Margrét Marzellíusardóttir, Pálmey Helga Gísladóttir og Sigurlína G. Sigurðardóttir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert