Vilja frekar vera feður

Sunna Símonardóttir, nýdoktor í félagsfræði.
Sunna Símonardóttir, nýdoktor í félagsfræði. Ljósmynd/Hari

Sumar konur upplifa íþyngjandi kröfur mæðrahlutverksins sem fráhrindandi og finnst að meiri ábyrgð sé lögð á konur frekar en karla í foreldrahlutverkinu. Hefur þetta meðal annars valdið því að þær kjósa að eignast ekki börn, að því er fram kemur í niðurstöðum viðtalsrannsóknar sem Sunna Símonardóttir, nýdoktor í félagsfræði hefur staðið fyrir.

Tekið var viðtal við 22 einstaklinga, bæði konur og karla, á aldrinum 25 til 44 ára sem höfðu valið barnleysi.Fór Sunna yfir helstu niðurstöður rannsóknarinnar í erindi á Þjóðarspeglinum í gær þar sem fókusinn var aðallega á svör kvennanna, sem voru í meirihluta viðmælenda, eða 16 af 22.

Fæðingartíðni á Íslandi hefur farið ört lækkandi undanfarin ár. Viðhorf í garð barneigna virðist því hafa breyst nokkuð hér á landi en rannsóknir gefa til kynna að á bilinu 11-13% íslenskra kvenna kjósi nú barnleysi.

„Það er ofboðslega áhugavert að skoða í þessu íslenska samhengi hvaða breytingar hafa orðið á samfélaginu og viðhorfum fólks. Hvernig fólk upplifir barneignir og fjölskyldulíf til að reyna að átta sig á af hverju við erum að sjá fólk velja að eignast færri börn en áður. Ein leið til að gera það er að taka viðtöl við þann hóp sem hefur valið barnleysi.“

Löngunin ekki til staðar

Að sögn Sunnu voru ástæður fyrir barnleysinu margar. Bar aðallega á því að löngun fyrir barni hafi hreinlega ekki verið til staðar, eða að hún hafi aldrei orðið nægilega sterk. Þá hafi hugmyndin um foreldrahlutverkið ekki þótt eftirsóknarvert eða spennandi.

Kom meðal annars fram að barnleysi meðal kvenna sé ekki einföld ákvörðun sem tekin var snemma á æsku og unglingsárum, heldur mætti frekar lýsa þessu sem ferli ákvarðana. Eru konur þá sífellt að endurmeta stöðuna og gera það upp við sjálfa sig hvort að rétt ákvörðun hafi verið tekin.

Upplifa mæðrahlutverkið sem íþyngjandi

Auk þess að finna ekki fyrir mikilli löngun í barn, upplifa konur einnig mæðrahlutverkið sem íþyngjandi hlutverk. Fannst mörgum kvenkyns viðmælendum samfélagið setja meiri ábyrgð á móðurina heldur en föðurinn og áttu þær frekar að fórna sér.

„Viðmælendurnir lýsa því að þær sjái í gegnum þessa orðræðu um jafnrétti og að verkaskiptingin á heimilum sé jöfn. Þær lýsa ákveðnum veruleika þar sem að öll ábyrgðin og verkstjórnin er á herðum mæðra og upplifa það ekki sem spennandi hlutverk.“

Þá sagði hún áhugavert að heyra að kvenkyns viðmælendur hennar væru spenntari fyrir „pabba hlutverkinu“ frekar en móðurhlutverkinu. Töldu þær það meira spennandi hlutverk með minni ábyrgð.

„Sumar sögðu bara: Ég væri til í að vera pabbinn. Geta átt barn og gert alla þessa skemmtilegu hluti sem fylgja stundum. Losna við þessar kröfur og íþyngjandi ábyrgð um hvernig mæður eiga að haga sér og svo framvegis. Þær sjá ekki fyrir sér að geta gert móðurhlutverkið að sínu eigin þannig að það henti þeim. Halda að það sé alltaf fast og bundið. Að maður verði að gangast inn í það og hafa enga möguleika að gera það eftir sínu eigin höfði.

Það var auðveldara að sjá fyrir sér nýjan heim þar sem mömmur geta verið pabbar heldur en heim þar sem mömmur og pabbar deila hlutverki jafnt. Eða að það geti verið uppspretta ánægju og gleði að vera foreldri en ekki bara streita og kvíði.“

Karlar þurfa síður að útskýra ákvörðun sína

Kom þá einnig skýrt fram í rannsókninni að mikinn mun var að finna í upplifun karlkyns og kvenkyns viðmælenda hennar hvað varðar samfélagsþrýsting.

„Konur þurfa sífellt að vera að útskýra ákvörðun sína gagnvart vinum, ættingjum og samfélaginu. Þær þurfa sífellt að finna einhver rök og mótrök hvaða ákvörðun þær hafa tekið um að vera barnlausar á meðan að karlarnir sjá þessa ákvörðun sem einfalda. Hún er bara tekin eða ekki tekin. Þetta er ekkert sem þarf að greina eða hugsa ótrúlega mikið um eða útskýra. Þessi samfélagslegi þrýstingur eða viðbrögð er miklu minni meðal karlanna þegar kemur að völdu barnleysi.“

Að sögn Sunnu kemur þessi niðurstaða ekki endilega á óvart miðað við þær hugmyndir sem eru uppi í samfélaginu um móðurhlutverkið, sem hefur verið tengt sterklega við kvenleikann. Auk þess sem tekið er mið af því að töluvert erfiðara er fyrir einhleypan karlmann að eignast barn í samanburði við einhleypa konu.   

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert