Atvinnufjelagið formlega stofnað

Sigmar Vilhjálmsson, einn stofnanda Atvinnufjelagsins.
Sigmar Vilhjálmsson, einn stofnanda Atvinnufjelagsins. mbl.is/Óttar

Stofnfundur Atvinnufjelagsins var haldinn í Grósku í gær en félaginu er ætlað að vera málsvari lítilla og meðalstórra fyrirtækja. Sigmar Vilhjálmsson, einn stofnenda félagins, segir fundinn hafa verið vel sóttan sem endurspegli þann mikla áhuga sem sé fyrir félagi sem þessu.

„Við gerðum könnun meðal 1.150 atvinnurekenda núna í byrjun júní og 585 fyrirtæki svöruðu. Af þeim voru 70% sem töldu mikla þörf á þessu félagi svo við vorum ekki alveg að renna blint í sjóinn með það hver áhuginn sé.“

Frá stofnfundi Atvinnufjelagsins.
Frá stofnfundi Atvinnufjelagsins. mbl.is/Óttar

Engin stærðartakmörk

Atvinnufjelagið verður ekki með neitt hámark á stærð eða starfsmannafjölda aðildarfélaga. Sigmar segir það meðal annars mega rekja til vanda við að skilgreina meðalstórt fyrirtæki: „Í Evrópusambandinu er viðmiðið 250 starfsmenn eða færri, en á íslenskum markaði er 250 starfsmanna fyrirtæki nokkuð stórt fyrirtæki svo í sjálfu sér er ekki til íslensk skilgreining á því. Við erum því ekki með nein takmörk á því hvaða félög geti komið til liðs við okkur svo fremi sem þau skilja hvað hagsmunamálum sé verið að verjast fyrir. Í grunninn mætti segja að skilgreining fyrirtækjanna byggi á því að ef fyrirtæki upplifi sig þannig að þau hafi ekki áhrif á gerð kjarasamninga, hafi ekki áhrif á aðgengi að fjármálamörkuðum og hafi ekki áhrif á lagasetningu um skatta og gjöld hins opinbera þá eigi þau heima í þessu félagi.“

Frá stofnfundi Atvinnufjelagsins.
Frá stofnfundi Atvinnufjelagsins. mbl.is/Óttar

Ein af áherslum félagsins er að litið sé til stærðar fyrirtækja við ákvörðun upphæða sekta og opinberra gjalda. „Eitt af grunndæmunum sem við nefnum er að hið opinbera er með gjaldskrá sem er föst og óháð stærð fyrirtækja. Við höfum nefnt sem dæmi að stjórnvaldsssekt við því að skila ekki ársreikningi á réttum tíma sé 600.000 krónur óháð stærð félagsins og þá spyr maður sig hvað valdi því,“ segir Sigmar og bendir á að styrkir hins opinbera vegna efnahagslegra afleiðinga samkomutakmarkana hafi verið miðaðir við stærð fyrirtækja.

Nánar má lesa um málið í Morgunblaðinu. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert