Klukkustund eftir að hafa varað við manni sem væri að villa á sér um heimildir með því að segjast vera starfsmaður heimaþjónustunnar sendi Lögreglan á Norðurlandi eystra frá sér uppfærslu þar sem kom fram að maðurinn væri í raun og veru starfsmaður á vegum velferðarsviðs Akureyrarbæjar.
Húsráðandi hafði ekki þekkt ungan mann sem bankað upp á hjá honum og bauðst til þess að versla inn fyrir íbúa. Auk þess að þekkja ekki til hans hafði hann ekki búist við starfsmanni á þeim tíma sem ungi maðurinn kom og því tilkynnti húsráðandinn hann til lögreglu sem varaði við athæfinu á Facebook.
Lögreglan segir það gott að tilkynningin hafi ekki átt við rök að styðjast en hvetur fólk til að vera varkár og bendir á að starfsmenn heimaþjónustunnar beri allir starfsmannaskírteini sem þeir eigi að geta framvísað.