Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir ekkert minnisblað í farvatninu er varðar takmarkanir innanlands þrátt fyrir að fjöldi smita í samfélaginu fari nú ört fjölgandi.
Um helgina greindust 130 smit innanlands og liggja nú 13 inni á Landspítala með veiruna, þar af tveir á gjörgæslu í öndunarvél. Stendur nýgengi innanlandssmita á hverja 100 þúsund íbúa nú í 282.
Þann 19. október lagði heilbrigðisráðherra til að afléttingar á samkomutakmörkunum innanlands myndu fara fram í tveimur skrefum. Fyrra skrefið var tekið þann 20. október, þá var grímuskyldu meðal annars aflétt og fjöldatakmörk færð í 2000 manns.
Seinna skrefið sem kvað á um fulla afléttingu innanlands átti að fara fram fjórum vikum síðar, að því gefnu að allt gengi vel og að smit myndu ekki rjúka upp. Það hefur þó ekki gengið eftir og þykir líklegt að von sé á frekari takmörkunum miðað við þá stöðu sem er uppi á teningnum núna.
Í samtali við mbl.is sagði Þórólfur sóttvarnalæknir að líklegt væri að smitum í samfélaginu myndi fjölga í kjölfar skemmtanahalds síðustu helgar.
„Ég held að það sé mjög líklegt. Auðvitað vonast maður til að svo verði ekki en ég held að það sé mjög líklegt. Í fyrsta lagi þá eru alltaf færri sýni tekin um helgar og við höfum verið með ansi hátt hlutfall jákvæðra sýna. Við höfum farið allt upp í 10% sem sýnir að þetta er orðið bara ansi útbreitt og svo kannski hafa menn verið að skemmta sér mikið um helgina sem hefur leitt til fjölda smita.“
Hann segir þó að engin formleg vinna væri hafin við gerð minnisblaðs en að hann fylgdist grannt með þróun faraldursins.
„Reglugerð um landamæri rennur út í lok vikunnar þannig að ég þarf að koma með tillögur um það en reglugerð um innanlandsaðgerðir rennur ekki út fyrr en seinna í nóvembermánuði,“ segir Þórólfur.
Muntu þá ekki leggja fram minnisblað fyrr en núverandi takmarkanir taka enda?
„Ég get ekki sagt um það. Það er ekkert í farvatninu hjá mér núna en það gæti breyst mjög hratt og það fer, eins og ég hef áður sagt, eftir því hvernig staðan er, hvað er að gerast á spítalanum, alvarleg veikindi, og svo framvegis.“
Í síðasta minnisblaði sem Þórólfur skilaði inn þann 18. október voru þrír kostir lagðir fyrir stjórnvöld, hafa óbreyttar takmarkanir, slaka á í skrefum eða aflétta öllu. Vakti þetta mikla athygli og hafa einhverjir bent á að þetta hafi í raun verið einu þrír kostirnir sem stóðu stjórnvöldum til boða.
„Stjórnvöld þurfa að líta til fleiri þátta þannig að ég held að það sé rétt að setja mínar tillögur fram á þann máta heldur en að koma með beinar tillögur. Það vita allir hvað er í gangi. Við ræðum stöðugt saman og það er því miður kannski ekki nóg samstaða í samfélaginu og stemning fyrir hertari aðgerðum og það er greinilegt og það er spurning hvaða leiðir stjórnvöld fara í því,“ segir Þórólfur.
Finnst þér rétt að þú bjóðir þrjár leiðir?
„Þegar umræða er uppi með mismunandi leiðir þá finnst mér rétt að ég komi með mína sýn á það hvað muni gerast og það felst alveg í mínu lögboðna hlutverki að gera það. Það felst ekki bara í mínu hlutverki að koma með beinar tillögur. Það er líka hlutverk stjórnvalda að vernda heilsu Íslendinga, það er ekki bara sóttvarnalæknis“
Spurður hvort persónubundnar smitvarnir gætu komið í stað frekari samkomutakmarkana segir Þórólfur það ólíklegt.
„Við höfum náttúrulega alltaf verið að hamra stöðugt á þessum persónubundnu sóttvörnum. Gert allt okkar til þess að koma því inn og biðla til fólks. Það hefur sýnt sig í fyrri bylgjum að það dugar ekki til eitt og sér, við höfum ekki náð samfélagslegum smitum niður fyrr en við grípum til einhverra takmarkana. Það hefur nú bara verið þannig.
Í hvert skiptið sem að við slökum á þá fáum við afturkipp í fjölda smita. Þannig að það er alveg greinilegt að einungis það að hvetja til persónubundinna sýkingavarna það hefur ekki dugað eitt og sér.“