Drífa Snædal, forseti ASí, vill lítið tjá sig um afsögn Sólveigar Önnu Jónsdóttur sem formanns Eflingar, en þær ræddu saman í síma í morgun.
„Það sem ég hef um málið að segja er að það er hlutverk ASÍ að styðja aðildarfélögin í að þjónusta sína félagsmenn og gera sína kjarasamninga. Við erum bara að gera okkur grein fyrir nýjum veruleika og því hvernig við getum stutt Eflingu sem best,“ segir Drífa í samtali við mbl.is.
ASÍ hefur enn ekki borist afsögn Sólveigar Önnu sem 2. varaforseta ASÍ en Drífa segir það ekki endilega gerast sjálfkrafa við afsögn hennar sem formanns Eflingar.
Sólveig Anna tilkynnti það á facebook-síðu sinni í gærkvöldi að hún hygðist segja af sér formennsku vegna vantrausts starfsfólks. Viðar Þorsteinsson, framkvæmdastjóri Eflingar, hefur einnig greint frá því að hann muni afhenda uppsagnarbréf sitt í dag.