Geðlestin lögð af stað í hringferð um landið

Geðlestin verður á ferð um landið í vetur.
Geðlestin verður á ferð um landið í vetur. Kort/Geðhjálp

Geðlestin, geðfræðsla fyrir nemendur í efri bekkjum grunnskóla og framhaldsskóla, er lögð af stað í ferð sína um landið. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Geðhjálp.

Um er að ræða samstarfsverkefni Geðhjálpar og Hjálparsíma Rauða krossins 1717 sem er ætlað að vekja athygli á mikilvægi geðheilsu og verndandi þáttum hennar. 

Markmiðið með Geðlestinni er að ræða við ungt fólk um geðheilsu og hvernig best sé að rækta hana og vernda, að því er greint frá í tilkynningunni.

Geðlestin verður á ferðinni um landið í allan vetur og mun hún koma við í unglingadeildum allra grunnskóla landsins sem og öllum framhaldsskólum.

 

 

Hvetja nemendur til þess að tjá sig

Hver heimsókn fer þannig fram að fyrst er sýnt myndband, þá segir ungur einstaklingur frá sinni persónulegu reynslu af geðrænum áskorunum, eftir það verða umræður og í lokin er stutt tónlistaratriði. Samtals tekur fræðslan um 50 mínútur.

Vikuna 1. til 5. nóvember verða grunnskólar á eftirfarandi stöðum sóttir heim: Ólafsvík, Grundarfirði, Bolungarvík, Ísafirði, Akureyri, Stóru tjörnum, Húsavík, Þingeyjarsveit, Mývatnssveit, Neskaupstað, Reyðarfirði og Egilsstöðum.

Geðlestin er styrkt af félagsmála- og heilbrigðisráðuneytum. Aðrir samstarfsaðilar verkefnisins eru Hertz og Cintamani.

Heimasíða verkefnisins er www.gedlestin.is en þar er að finna hin ýmsu verkfæri til geðfræðslu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert