Fólk hlustaði af mikilli athygli á opnunarhátíð COP26 loftslagsráðstefnunnar og mátti heyra saumnál detta þegar David Attenborough steig á svið og talaði, að sögn Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra sem var viðstödd.
COP26 loftslagsráðstefnan er árlegur viðburður á vegum Sameinuðu þjóðanna og fer nú fram í Glasgow. Yfir 100 þjóðarleiðtogar eru nú staddir í Bretlandi og munu þeir ávarpa ráðstefnuna næstu tvo daga og verður Katrín meðal annars með erindi á morgun.
„Það var mikill þungi í hans orðum þar sem hann lýsti því hvernig hann hefði séð vistkerfi heimsins hnigna á sinni ævi en hann talaði líka mikla von í mannskapinn og að allt sem mannlægt athæfi hefði spillt væri hægt að laga með mannlegu athæfi. Það er alveg ljóst að Bretar ætla að tefla fram sínu stjörnuliði í von um að ná góðum árangri út úr þessum fundi,“ sagði Katrín um ræðu umhverfissinnans og sjónvarpsmannsins David Attenborough.
Auk hans stigu einnig á svið þeir Boris Johnson forsætisráðherra Bretlands og Karl Bretaprins. Voru skilaboðin mjög skýr frá öllum þeirra.
Að sögn Katrínar er almennt mikil samstaða meðal ríkjanna á ráðstefnunni um loftslagsmálin en þó væru alltaf einhverjir sem tækju ekki þátt. Vakti hún þá athygli á því að Kínverjar og Rússar hefðu ekki látið sjá sig, auk þess sem forseti Tyrklands hefði afboðað sig með litlum fyrirvara.
„Ýmsar þjóðir eru mjög ákveðnar í því að þessi fundur verði að ganga upp en það standa einhverjir út af. Það er auðvitað tekið eftir því hverjir eru ekki hér. En svo er líka mjög sterkur hópur sem er mjög samhentur í því að ná auknum árangri.“
Segir hún þá mikilvægt að hafa hugfast að ekki sé hægt að leggja þessi mál til hliðar að loknum fundi. „Við þurfum að vera meðvituð um að hugsa um þessi mál á hverju ári.“
Í ágúst birtist skýrsla milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar. Niðurstöðurnar voru síður en svo jákvæðar og segir þar meðal annars að nú sé enn skýrara en áður að athafnir okkar manna séu meginorsök þeirra breytinga sem eiga sér stað á loftslaginu.
Í síðustu viku birtist svo skýrsla umhverfisstofnunar SÞ þar sem fram kom að með núverandi markmiðum ríkja gæti meðalhitastig jarðar hækkað upp í 2,7 gráðu markið. Magn gróðurhúsalofttegunda náði hámarki á síðasta ári, þrátt fyrir heimsfaraldur. Þá hefur kolefnisspor okkar Íslendinga ekki lækkað neitt síðustu ár og er meðal því hæsta í Evrópu.
Spurð hvaða skref þurfi nú að taka til þess að hægt sé að tryggja það að Íslendingar fari að sjá mælanlegan árangur á sviði umhverfismála, segir Katrín að huga þurfi að orkumálum og losun frá landi.
„Fyrst þá er það hvernig við getum dregið úr losun með breyttum samgöngumátum og orkuskiptum í samgöngum, þungaflutningum, sjávarútvegi og byggingariðnaði. Þetta eru allt geirar sem að ég hef trú á því að við getum náð hraðari árangri í en við höfum talið hingað til. Við sjáum það að almenningur á Íslandi er mjög móttækilegur fyrir bæði breyttum ferðamátum og orkuskiptum í samgöngum.
Síðan er auðvitað stór hluti losunarinnar eitthvað sem kemur frá landnotkun. Það er eitthvað sem kallar á langtíma sýn hvað varðar landgræðslu, endurheimt votlendis, skógrækt og fleira. Síðan er það sem fellur undir þetta sameiginlega evrópska kerfi, eins og alþjóðaflugið og stóriðjan og fleira. Þar munum við örugglega á næstu árum sjá þróun í tækni og hugviti sem að mun gera okkur léttara fyrir að draga úr losun úr þessum geirum.“
Spurð hvort hún sjái fyrir sér að boð og bönn muni einkenna framtíðina í loftslagsmálum, þar sem neysla yrði mögulega takmörkuð með loftslagssköttum, segir Katrín það vel koma til greina.
„Já ég held að grænir skattar séu tvímælalaust hluti af lausninni, eins og grænar ívilnanir. Við sjáum það að oft og tíðum geta slíkir skattar skilað árangri. Eins geta grænar ívilnanir skilað miklu. Við sjáum það til dæmis á rafbílavæðingunni á Íslandi að þá munar miklu á þeim ívilnunum sem eru til staðar,“ segir Katrín.
Bætir hún einnig við að grænar fjárfestingar séu auk þess afar mikilvægar í þessu samhengi. Munu norrænir forsætisráðherrar og fulltrúar norrænna lífeyrissjóða vera með erindi á ráðstefnunni á morgun þar sem fjallað verður um það hvernig hægt sé að tryggja að fjármagnið fari í auknum mæli að vinna með baráttunni gegn loftslagsbreytingum. Segir Katrín þá svakalegt að hugsa til þess að enn sé verið að verja miklum fjármunum til óendurnýjanlegra orkugjafa.